fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fréttir

Vilhjálmur tilbúinn í stríð: „Hugsið ykkur hvert við erum komin“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 6. desember 2024 13:26

Vilhjálmur Birgisson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að stofnun gervistéttarfélagsins Virðingar sé svívirðileg aðför að kjörum verkafólks sem starfa á veitingamarkaði.

Það vakti athygli í vikunni þegar stéttarfélagið Efling sendi frá sér tilkynningu þar sem varað var við umræddu félagi. Kom fram að ekki væri um raunverulegt stéttarfélag að ræða heldur svikamyllu rekna af atvinnurekendum í þeim tilgangi að skerða laun og réttindi starfsfólks.

„Efling hefur staðfesta vitneskju um tilvik þar sem starfsfólki hefur verið sagt af atvinnurekanda að það eigi að starfa undir kjarasamningi Virðingar við atvinnurekendafélagið SVEIT. Tilgangur þess er að fá starfsfólk til að samþykkja lægri laun og verri kjör.“

Vilhjálmur segist í langri færslu á Facebook-síðu sinni, þar sem hann fjallar ítarlega um málið, hafa fengið fregnir af því að Virðing sé farin að láta að sér kveða á Akureyri sem er eitt af félagssvæðum Starfsgreinasambandsins. Kveðst Vilhjálmur taka undir áhyggjur og gagnrýni Eflingar. Þá birtir hann sláandi dæmi um réttindaskerðingar í kjarasamningi hins nýja félags.

Sjá einnig: Efling varar starfsfólk í veitingageiranum við Virðingu sem þau segja gervistéttarfélag – Veitingamenn í stjórn

Stofnuðu bara sjálfir gervistéttarfélag

„Það er rétt að vekja athygli á því að Aðalgeir Ásvaldsson framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) og aðrir stjórnarmenn óskuðu eftir fundi með Starfsgreinasambandi Íslands fyrir nokkrum misserum síðan,“ segir Vilhjálmur og bætir við að á þeim fundi hafi komið skýrt fram ósk um að SVEIT vildu fá að gera kjarasamning við SGS en sú ósk hafi að stórum hluta gengið út á að skerða réttindi starfsmanna sem starfa í veitingageiranum.

„Að sjálfsögðu hafnaði SGS þessum hugmyndum og vísaði SVEIT á að vera í samtali við Samtök atvinnulífsins sem væri sá samningsaðili sem SGS gerði kjarasamninga við í þessum geira. Nú hefur komið í ljós að Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði dóu ekki „ráðalaus“ þrátt fyrir að hvorki SGS né Efling væru tilbúin til að ganga frá nýjum kjarasamningi sem átti að gjaldfella laun og önnur réttindi starfsfólks á veitingastöðum. Jú þessir aðilar virðast hafa ákveðið að stofna sjálfir gervistéttarfélag til að gjaldfella áratuga kjara-og réttindabaráttu launafólks,“ segir Vilhjálmur og er ómyrkur í máli.

Sjá einnig: Nafntogaðir veitingamenn á meðal þeirra sem Efling hefur blásið í herlúðra gegn

„Hugsið ykkur hvert við erum komin þegar atvinnurekendur sjálfir stofna „gervistéttarfélag“ til þess eins að taka niður kjör launafólks. Það er klárt mál að hér er um að ræða mestu aðför að kjarabaráttu launafólks um áratugaskeið enda blasir það við að verkalýðshreyfingin, Samtök atvinnulífsins og samfélagið allt getur alls ekki horft aðgerðalaust á þessa valdbeitingu Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði.  Hér er verið að níðast á lágtekjufólki á íslenskum vinnumarkaði með svívirðilegum hætti,“ segir Vilhjálmur.

Svívirðilegt

Hann segir að við athugun aðildarfélaga SGS hafi komið í ljós að þetta gervistéttarfélag hafi tengt sig inn á félagssvæði aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands. Í því samhengi nægi að nefna að Eining Iðja á Akureyri hafi haft spurnir af því að hið nýja félag sé komið af fullum þunga til Akureyrar.

„Þessu mun Starfsgreinasamband Íslands mæta af fullum þunga og afli enda svívirðilegt að atvinnurekendur skuli voga sér að beita launafólk svona ofbeldi með því að gjaldfella kjör og réttindi með gervistéttarfélagi.“

Vilhjálmur skorar á félagsmenn Starfsgreinasambands Íslands að hafa tafarlaust samband við sitt stéttarfélag ef þeir verða varir við að atvinnurekendur séu að reyna að þvinga starfsfólk sitt yfir í hið nýja félag til þess eins að svína á réttindum þeirra sem starfa í veitingageiranum. Hann segir að lagahlið málsins verði skoðuð því þessi nýi „kjarasamningur“ sé meðal annars ósamrýmanlegur lögum um starfskjör launafólks og fleira.

Dagvinnutími frá 8-20 og líka á laugardögum

„Það er mikilvægt að benda á eins og fram kom hjá Eflingu að manneskja sem vinnur vaktavinnu á veitingastað samkvæmt samningi SVEIT við Virðingu fær ríflega 10% lægri laun en sú sem fær greitt eftir löglegum kjarasamningi SGS og Eflingar við SA,“ segir Vilhjálmur í færslu sinni og varpar svo ljósi á helstu réttindaskerðingar sem þessi nýi kjarasamningur Virðingar hefur í för með sér:

  • Dagvinnutímabil lengt gríðarlega eða frá 08:00 til 20:00 og dagvinna er einnig til 16:00 á laugardögum.
  • Vaktaálög lækkuð.
  • Kjör ungmenna á aldrinum 18-21 árs eru skert, en heimilt er að greiða þeim 95% af byrjunarlaunum, án takmörkunar á reynslutíma.
  • Orlofsréttindi eru skert en ekki er gert ráð fyrir ávinnslu orlofs umfram lögbundinn lágmarksrétt.
  • Uppsagnarfrestur er styttri.
  • Veikindaréttur er skertur.
  • Réttur vegna veikinda barna er skertur.
  • Hátíðardögum fækkað.
  • Réttur barnshafandi kvenna er skertur.
  • Ýmis félagsleg réttindi eru skert sem og réttindi og möguleikar trúnaðarmanna á að gegna starfi sínu.
  • Enginn sjúkrasjóður.

Eru að kalla yfir sig stríð

Vilhjálmur segir að á þessari upptalningu sjáist sú aðför sem verið er að ástunda gagnvart innlendu sem erlendu verkafólki sem starfar í þjónustu á veitingamarkaði.

„Ég sem formaður í Starfsgreinasambandi Íslands vil koma þeim skýru tilmælum til þeirra atvinnurekenda sem stofnuðu þetta gervistéttarfélag að hverfa frá þessari vanvirðingu við réttindabaráttu launafólks tafarlaust og leggja þetta ólöglega gervistéttarfélag niður og fara eftir þeim lágmarks kjarasamningum sem SGS og Efling hafa gert við Samtök atvinnulífsins fyrir umrædd störf,“ segir Vilhjálmur sem er tilbúinn að fara í hart.

„Ef ekki þá er ljóst að Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði eru að kalla yfir sig stríð við alla verkalýðshreyfinguna enda þau lágmarkskjör og réttindi sem um hefur verið samið á milli aðila vinnumarkaðarins hornsteinn sáttar á íslenskum vinnumarkaði. Hið rétta nafn á þessu gervistéttarfélagi er alls ekki Virðing heldur Vanvirðing.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Ragnar fór úr rannsókn á ráni í mótmælin við Alþingi – „Ég get ekki bakkað úr svona aðstæðum og ég ætla ekki að skilja þá eftir“

Ragnar fór úr rannsókn á ráni í mótmælin við Alþingi – „Ég get ekki bakkað úr svona aðstæðum og ég ætla ekki að skilja þá eftir“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands
Fréttir
Í gær

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans
Fréttir
Í gær

Var með mikið magn af OxyContin innvortis

Var með mikið magn af OxyContin innvortis
Fréttir
Í gær

Efling boðar til aðgerða gegn 100 veitingastöðum

Efling boðar til aðgerða gegn 100 veitingastöðum
Fréttir
Í gær

Vodafone byrjar að rukka mánaðargjöld fyrir netföng

Vodafone byrjar að rukka mánaðargjöld fyrir netföng
Fréttir
Í gær

Drápshundarnir í Langholtshverfi hafa drepið ketti og ráðist á fólk – „Hundarnir endurspegla eigendurna“

Drápshundarnir í Langholtshverfi hafa drepið ketti og ráðist á fólk – „Hundarnir endurspegla eigendurna“