Nýskráður formaður veitingamannafélagsins SVEIT, Björn Árnason, er giftur Hrefnu Sætran sem á Kampavínsfjelagið með Jóhönnu Sigurbjörgu Húnfjörð, stjórnarkonu í Virðingu sem SVEIT gerði umdeildan kjarasamning við. Eiginmaður Jóhönnu, og meðeigandi í Kampavínsfjelaginu, Styrmir Bjarki Smárason, er þar að auki rekstrarstjóri Fiskmarkaðarins, sem er í eigu Hrefnu Sætran.
Verkalýðsfélagið Efling hefur blásið í herlúðra gegn SVEIT og Virðingu, sem þau segja vera gervistéttarfélag. Það er félag sem stjórnað er af atvinnurekendum sjálfum en ekki launafólki.
Í gær greindi DV frá því að Hrefna Björk Sverrisdóttir, eigandi veitingastaðarins ROK, væri í stjórn SVEIT og hafi þangað til fyrir skemmstu verið skráð formaður félagsins. Varamaður í stjórn Virðingar er 18 ára dóttir hennar Ronja Björk Bjarnadóttir. Sem sagt mæðgur sitja sitt hvorum megin við borðið við gerð kjarasamninga.
En eins og hér að ofan kemur fram eru tengsl þessara félaga enn þá meiri. Formaður SVEIT hefur eigna og fjölskyldutengsl við stjórnarkonu Virðingar.