Fjallað er um þetta í Morgunblaðinu í dag.
Örn vísar meðal annars í kappræður sem haldnar voru á RÚV, daginn fyrir kosningar, þar sem Inga tiltók Heklureit sem dæmi um reit með fáum bílastæðum þar sem illa gangi að selja íbúðir.
„Inga Sæland hefur í tvígang nefnt Heklureit sem dæmi um uppbyggingu í borginni þar sem séu örfá bílastæði og að illa gangi að selja íbúðir. Hvort tveggja er rangt,“ segir Örn í samtali við Morgunblaðið og bendir á að bílastæðakrafan á Heklureit sé 0,75 stæði á hverja íbúð en ekki 0,2 eins og hún hefur haldið fram.
Þá hafi Inga nefnt að aðeins sjö íbúðir hafi verið seldar sem er rangt, að sögn Arnar.
„Í fyrsta húsinu á Heklureit sem er Laugavegur 168 og komið er í sölu eru 82 íbúðir og af þeim eru 36 þegar seldar en samt er ár í afhendingu fyrstu íbúða,“ segir hann og nefnir að þetta sé vel yfir væntingum uppbyggingaraðila. Hann er hugsi yfir málinu.
„Það er umhugsunarefni þegar kjörnir fulltrúar sem hafa mikinn aðgang að fjölmiðlum hafa í frammi rangar staðreyndir um einstök byggingarverkefni í borginni. Verið getur að Inga Sæland sé að rugla saman byggingarreitum en þá þarf að vinna þá heimavinnu betur en gert er til að fara með rétt mál,“ segir Örn við Morgunblaðið í dag.