Landsréttur sneri í dag við dómi Héraðsdóms Reykjaness og sakfelldi þá Ásbjörn Þórarinn Sigurðsson og Bessa Karlsson fyrir nauðgun á 18 ára stúlku árið 2020.
Atvikið átti sér á heimili Ásbjörns í Hafnarfirði. Hinir ákærðu voru báðir um tíu árum eldri en stúlkan. Tvær aðrar ungar stúlkur voru í samkvæminu en þær fóru burtu í um 30-40 mínútur og á meðan átti brotið sér stað.
Þegar stúlkurnar tvær komu til baka var brotaþoli niðurbrotin og hjálpuðu þær henni að komast heim í leigubíl. Hún greindi síðan foreldrum sínum frá því að henni hefið verið nauðgað og tilkynnti faðir hennar atvikið til lögreglu.
Ásbjörn og Bessi voru ákærðir fyrir að hafa með ofbeldi og ólögmætri nauðung, í félagi haft önnur kynferðismök en samræði við stúlkuna, án hennar samþykkis. Ásbjörn hafi klipið í handlegg hennar, haldið höndum hennar föstum og rifið endurtekið í hár hennar og tekið hana hálstaki. Ákærðu hafi báðir sett fingur sína upp í munn stúlkunnar og sett getnaðaralimi sína inn í munn hennar og þvingað hana til að hafa við þá munnmök. Á meðan þessu stóð eru þeir sagðir hafa káfað á brjóstum hennar innanlæða og kynfærum utanklæða og þvingað hana til að taka inn kókaín.
Ásbjörn og Bessi neituðu báðir sök. Ásbjörn sagðist ekki hafa átt nein kynferðisleg samskipti við konuna en sagðist hafa verið sjónarvottur að því er hún og Bessi keluðu í sófa í stofunni. Bessi staðfesti þennan framburð.
Dómari við héraðsdóm mat framburð tvímenninganna trúverðugan og voru þeir því sýknaðir.
Landsréttur var þessu algjörlega ósammála og benti á ósamræmi í framburði þeirra hjá lögreglu og fyrir dómi. Landsréttardómari spurði þá hvers vegna þeir hefðu ekki greint frá meintu keleríi brotaþola við Bessa í lögregluyfirheyrslum en sagt frá því er þeir báru vitni fyrir héraðsdómi. Gáfu þeir þá skýringar að þeir hefðu verið í taugaóstyrkir í yfirheyrslum lögreglu.
Einnig er bent á að þeir hafi ekki getað gefið skýringu á því hvers vegna hár úr brotaþola fannst á innanverðum nærbuxum Bessa né á þeim áverkum sem voru á brotaþola þegar hún kom á Neyðarmóttöku nokkrum klukkustundum eftir að hún hafði verið ein með þeim tveimur.
Auk þess var framburður þeirra um líðan brotaþola eftir atvikið fyllilega í ósamræmi við framburð vitna, þ.e. stúlknanna sem höfðu skroppið frá úr partíinu og komu síðan til baka.
Framburður brotaþola var metinn trúverðugur og fyllilega í samræmi við framburð annarra vitna og gögn málsins.
Voru báðir sakfelldir fyrir nauðgun og dæmdur í þriggja ára fangelsi.
Dóminn má lesa hér.