Lögregla var kölluð út í Árbæ í dag vegna hávaða innandyra í íbúð. Þegar lögreglan kom á staðinn hitti hún fyrir tvo aðila sem voru í íbúðinni. Þau kváðust hafa rifist út af peningaeyðslu þeirra í fíkniefni undanfarið, þar sem jólin væru á næsta leiti.
Ofangreint kemur fram í dagbók lögreglu. Þar kemur eins fram að í Breiðholti barst tilkynning um frelsissviptingu og rán í heimahúsi. Húsráðandi var brotaþoli og voru tveir handteknir á vettvangi vegna málsins. Báðir voru í annarlegu ástandi sökum fíkniefnaneyslu.
Aðili í Hlíðum var ógnandi og í annarlegu ástandi í verslun. Hann hafði brotið hurð innandyra og var handtekinn á vettvangi. Annar aðili hafði sofnað í sameign fjölbýlishúss í hverfinu. Lögregla vísaði honum á dyr og gekk það vandræðalaust fyrir sig.
Eins var tilkynnt um nágrannaerjur í Múlahverfi en lögreglu tókst að stilla til friðar.
Bíll valt í Hafnarfirði og hlaut ökumaður minni háttar áverka, en hann var einn í bifreiðinni. Sá ákvað að leita sjálfur á slysadeild.
Loks var tilkynnt um vinnuslys í Hafnarfirði. Sá slasaði var fluttur á slysadeild af sjúkraflutningsmönnum.