Verðið á þriðjudagstilboði Domino´s á Íslandi hækkaði í dag í 1.500 krónur úr 1.300 krónum.
Þetta er fjórða verðhækkun á þriðjudagstilboðinu frá því í október 2021 en þá vakti það þjóðarathygli þegar verð tilboðsins hækkaði úr 1.000 krónum og upp í 1.100 krónur. Verðið á tilboðinu hafði þá verið óbreytt í ellefu ár.
„Þriðjudagstilboð hefur ekki fylgt verðlagi en myndi kosta 1800kr í dag ef svo væri. Á sama tíma hefur kostnaður stóraukist og ekki síst síðustu ár. Þrátt fyrir að verðbólga mælist nú lægri en oft áður, höfum við fengið miklar hækkanir á kostnaðarliðum og fram undan eru enn frekari hækkanir. Þar má nefna launahækkanir og hækkanir frá birgjum, t.d. á osti frá 1. des.
Er það von okkar að unnt verði að halda verðinu óbreyttu sem lengst enda höfum við í 30 ár kappkostað að bjóða hagstætt verð á öllum okkar vörum. Þrátt fyrir hækkunina nú er tilboðið enn einstaklega gott og leitun að tilboði sem gefur heimilum landsins meira fyrir peninginn,“
segir Magnús Hafliðason forstjóri Domino´s í skriflegu svari til DV.
Hækkunin á tilboðinu hefur þegar vakið athygli og meðal annars nokkra umræðu í Facebook-hópnum Vertu á verði – eftirlit með verðlagi.