fbpx
Miðvikudagur 04.desember 2024
Fréttir

Telur Miðflokkinn hafa klúðrað stórsigri – Höfnuðu blessun Guðs og settu gamla jálka í efstu sæti

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 3. desember 2024 18:57

Þröstur Jónsson. Mynd; Facebook.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þröstur Jónsson, íbúi á Egilstöðum og sveitarstjórnarfulltrúi Miðflokksins í Múlaþingi, telur að Miðflokkurinn hafi átt möguleika á stórum kosningasigri sem ekki hafi verið nýtt.

Hann bendir á að áreiðanlegar skoðanakannanir frá Gallup hafi sýnt flokkinn í 20% á landsvísu og 34% í Norðausturkjördæmi. Þröstur fer yfir málin í grein á Fréttinni en ræddi einnig við DV. Þröstur er sannkristinn og mjög trúaður og hluti af skýringunni á því að Miðflokkurinn náði ekki fram þeim sigri en tilefni var til, er að mati Þrastar trúarleg.

„Ekki eru allir sáttir við framgöngu undirritaðs í sveitarstjórn Múlaþings þar sem ég óhræddur vitna í ritningar Biblíunnar og Jesú Krist sjálfan úr ræðustól sem annars staðar,“ segir Þröstur í grein sinni á Fréttinni en í samtali við DV segir um hlutdeild Guðs í þessu öllu:

„Ég trúi að þegar guð sér þetta, hann skimar um jörðina, sér að það er einhver sem vilja kannast við hann þá blessar hann þá. Verði hans dýrðin, ekki mín. Þegar maður segir svona við ókristið fólk þá telur það mann vera ruglaðan. Það er allt í lagi.“

Má skilja á Þresti að Miðflokkurinn hafi ekki meðtekið nægilega vel blessun Guðs sem birtist í miklu fylgi flokksins í skoðanakönnunum. Aðspurður hvort Miðflokkurinn sé ekki nógu kristilegur, þá segir hann: „Mér finnst að allir flokkar eigi að vera kristilegir. En ég myndi halda að hann væri illskástur í þeim efnum. Það eru vissulega kristnir þarna innan um.“

Þröstur finnur meðal annars að því í grein sinni að gamlir jálkar hafi verið settir í efstu sætin á listum flokksins. Sjálfum hafi honum verið hafnað:

„Síðan hófst uppstilling í kjördæmunum og hver vegleysan af annarri kom fram. Formaðurinn hélt áfram að leiða í NA kjördæmi, þó löngu væri tímabært að hann tæki slaginn í sínu heimakjördæmi sunnan heiða og fyndi öflugan kandidat í staðinn til að leiða NA kjördæmi. Sjálfum var mér hafnað sæti á listanum, þó ég gæfi kost á mér í neðri sætin, enda ekki á leið á Þing. Listinn í NA hafði aðra ágalla sem ég ætla ekki að fara nánar út í hér.

Ekki bætti úr skák þegar „gömlu jálkarnir“ fóru að bitrast í efstu sætum M-listans í öðrum kjördæmum, í stað þess að taka inn nýtt blóð sem var ákall frá kjósendum. Greiningarleysi uppstillingarnefnda.“

Er þrátt fyrir allt ekki ósáttur við Sigmund Davíð

Þegar DV spyr Þröst hvort með gömlum jálkum hann eigi við menn á borð við Gunnar Braga Sveinsson, Þorstein Sæmundsson og Karl Gauta Hjaltason, þá hlær Þröstur dátt og segir: „Ég er aldrei að fara að svara þessu.“

En varðandi gagnrýni sína á það að formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sé oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi, en búi á höfuðborgarsvæðinu, þá segir Þröstur:

„Ég hefði talið skynsamlegt núna að breyta til í ljósi þess að hann er búinn að vera þarna mjög lengi, hann sést líka ekki rosalega mikið þarna og er ekki þannig lagað séð þingmaður kjördæmisins. Það var bara nóg núna af kröftugu fólki í Norðausturkjördæmi, það hefði kannski verið hægt að nýta tækifærið núna til að segja: Núna má barnið mitt fara, það er orðið fullorðið.“

Varðandi það að honum sjálfum hafi verið hafnað þá útskýrir Þröstur orð sín í greininni um það svona: „Ég sótti ekki á það. Það var bara þannig að ég var spurður og ég sagði, setjið mig á lista ef þið teljið það vera listanum til framgangs. Ef ekki, þá gerið það ekki. Niðurstaðan var þessi. Samt eru þrír frá Egilsstöðum á listanum.“

Gálgahúmor

„Ef til vill verð ég rekinn úr flokknum fyrir þessi skrif. Mér gæti ekki verið meira sama, enda skiptir álit manna mig engu en álit Guðs skiptir mig öllu. Ég mun áfram halda að berjast fyrir Múlaþing, biðja þess Guðs blessunar fyrir hvern sveitarstjórnarfund og vonand fá allir að sjá ljós og framgang í því sveitarfélagi, sem svo lengi hefur verið beðið eftir,“ segir Þröstur í greininni á Fréttinni.

Hann útskýrir þessi orð sem einslags gálgahúmor í spjalli sínu við DV. „Þetta er svona gálgahúmor, en nei ég held það gerist ekki að ég verið rekinn. Þetta er samt svona létt gagnrýni. Ef ekki er hægt í stjórnmálaflokki að segja skoðun sína óhræddur þá hef ég ekkert að gera í slíkum flokki.“

Aðspurður segist hann sjálfur ekki vera á leið úr Miðflokknum. „Þetta er illskásti flokkurinn ef maður vill gera í stjórnmálaflokki.“

Hann fer hins vegar ekki ofan af því að Miðflokkurinn hafi átt möguleika að fá miklu meira fylgi en það sem á endanum var talið upp úr kjörkössunum. „Ég held hann hefði átt að ná 20 prósentum. Það var það sem maður hefði viljað sjá. Við sjáum hvernig Flokkur fólksins nýtti tækifærið miklu betur en Miðflokkurinn.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Arfurinn sem hún fékk á barnsaldri reyndist dýrkeyptur á fullorðinsárunum

Arfurinn sem hún fékk á barnsaldri reyndist dýrkeyptur á fullorðinsárunum
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Jón Ingi fékk sex ára fangelsisdóm í Sólheimajökulsmálinu

Jón Ingi fékk sex ára fangelsisdóm í Sólheimajökulsmálinu
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Dagur svekktur og játar sig sigraðan: „Ég skil ekki hvernig þetta kerfi virkar“

Dagur svekktur og játar sig sigraðan: „Ég skil ekki hvernig þetta kerfi virkar“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Halldór Armand fékk ekki krónu í listamannalaun og birtir epíska mynd

Halldór Armand fékk ekki krónu í listamannalaun og birtir epíska mynd
Fréttir
Í gær

Fæstir hafa líklega hugsað út í þessa þróun stríðsins í Úkraínu

Fæstir hafa líklega hugsað út í þessa þróun stríðsins í Úkraínu
Fréttir
Í gær

Friðrik Ómar tapaði hundruðum þúsunda með augnabliksóvarkárni – „Passið ykkur“

Friðrik Ómar tapaði hundruðum þúsunda með augnabliksóvarkárni – „Passið ykkur“