Formlegar stjórnarmyndunarviðræður hefjast á morgun á milli Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins. Þetta var niðurstaða klukkutíma fundar formannanna Kristrúnar Frostadóttur, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Ingu Sæland síðdegis í dag.
Viðræður hefjast í fyrramálið. Greint var frá því á stuttum blaðamannafundi eftir fundinn í dag að stefnt væri að fækkun ráðuneyta.
„Valkyrjurnar eru komnar til að sjá og sigra,“ sagði Inga Sæland. Greindu þær frá því að þær myndu nálgast viðræðurnar með jákvæðni og bjartsýni. Skoða hvar sameiginlegir fletir liggja. Allar væru þær meðvitaðar um að mikilvægt sé að ná efnahagslegum stöðugleika og ná niður verðbólgu og vöxtum. Ræða þyrfti einstök mál en þær horfðu jákvæðum og lausnamiðuðum augum á verkefnið.