Það hefur lengi verið mikilvægur þröskuldur fyrir Rússa að gengi rúblunnar færi ekki niður fyrir 100 rúblur fyrir hvern dollara. Í síðustu viku kostaði einn dollari 114 rúblur og því hringja allar aðvörunarbjöllur.
„Skelfingarkast“ fyrir rússneska gjaldeyrismarkaðinn sagði fyrirsögn í Roxxiyskaya Gazeta í síðustu viku eftir að gengið fór niður í 114 rúblur fyrir hvern dollara. Dagblaðið Kommersant sagði að fréttirnar af gengishruninu „líkist stríðsfrétt“.
Fyrir tveimur árum var gengið 60 rúblur fyrir hvern dollara. Fyrir fimmtán árum var það 30 rúblur fyrir hvern dollara.
En nú eru tímarnir aðrir og nýjustu refsiaðgerðir Bandaríkjanna, sem beinast að Gazprombank, sem er þriðji stærsti lánveitandinn í Rússlandi, bíta af miklum þunga. Bankinn gegnir lykilhlutverki við greiðslu og móttöku greiðslna fyrir orkusölu og var einn fárra banka sem var ekki beittur refsiaðgerðum.