VG galt afhroð í kosningunum og fékk aðeins 2,3 prósenta fylgi og samtals innan við 5.000 atkvæði. Þetta er langversta niðurstaða VG frá stofnun flokksins en næst minnst fylgi fékk flokkurinn árið 2003 þegar hann fékk 8,8 prósenta fylgi.
„Úrslitin eru högg og þyngra en búast mátti við,“ segir Steingrímur í samtali við Morgunblaðið í dag en hann segir að ekki sé annað að gera en bretta upp ermar og halda áfram.
„Ég hef enga trú á öðru en að starf VG haldi áfram. Áfram eru til staðar mikilvæg málefni sem voru kjarninn í stefnu flokksins og þeim þarf að berjast fyrir,“ segir hann í viðtalinu. Hann segir að niðurstöður kosninganna séu í „hrópandi ósamræmi“ við hvað flest hafi í aðalatriðum gengið vel á Íslandi þrátt fyrir erfiðar aðstæður.
Nefnir Steingrímur til dæmis Covid-faraldurinn, eldgosahrinu á Reykjanesskaganum, styrjaldir og orkukreppu í Evrópu. Hann kveðst einnig vera hugsi að undir fimm prósenta markinu, sem þarf til að eiga rétt á jöfnunarsæti, séu þrír flokkar: VG, Sósíalistar og Píratar,
„Samanlagt fylgi þeirra er 9,3%, sem undir öðrum kringumstæðum ætti að skila sér í 6-7 manna þingflokk,“ segir Steingrímur.