Þetta kom fram í Formannaspjallinu á Stöð 2 í gærkvöldi en þar var rætt við forystumenn flokkanna eftir kosningarnar á laugardag. Flokkur fólksins vann ákveðinn sigur í kosningunum, fékk 13,8% atkvæða og alls tíu þingsæti. Eiga margir von á því að Flokkur fólksins muni mynda næstu ríkisstjórn ásamt Samfylkingu og Viðreisn. En Björn Leví var ekki svo viss þegar hann var spurður hvaða þrír flokkar færu saman í stjórn og spáir því að vendingar verði í forystu Sjálfstæðisflokksins sem gæti leitt til þess að hann fari í ríkisstjórn.
„Ég ætla að giska á að það verði þrír stærstu flokkarnir,“ sagði Björn Leví og bætti við að hann ætti jafnvel von á því að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, stigi til hliðar og Þórdís Kolbrún Reykfjörð taki við keflinu.
„Ég sé ekki séns á að Inga [Sæland] geti slegið af kröfunum sínum sem hún er búin að hafa mjög hátt um undanfarin kjörtímabil á skiljanlegan hátt. Það vita það allir sem vilja vita það að það er ekkert hægt að vinna með Sigmundi Davíð, það er ekki hægt að treysta neinu sem hann segir eða samningum sem hann gerir eða neitt svoleiðis. Þetta verður alveg ofsalega áhugavert að sjá hvers konar ríkisstjórn á að reyna að mynda,“ sagði hann.
Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, sem var í settinu ásamt Birni Leví og Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins, sagðist ekki vilja spá fyrir um næstu ríkisstjórn en sagði þó að þessi kostur sem Björn Leví nefndi væri augljóslega við sjónarrönd þó hann væri ekki í spilunum akkúrat núna. Benti hún á að það væri mjög erfitt að mynda ríkisstjórn.
„Maður finnur það að þessar flottu og öflugu forystukonur, Kristrún og Þorgerður, þær vilja báðar helst sjá ríkisstjórn þar sem þessir tveir flokkar eru innanborðs og síðan prjóna utan á það eitthvað sem gæti endurspeglað pólitískan stöðugleika.“
Sigurður Ingi benti á að kosningarnar um helgina hafi snúist um breytingar og þar af leiðandi sér hann ekki fyrir sér að Sjálfstæðisflokkurinn fari í ríkisstjórn. Segir hann að líklegasta mynstrið sé Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins. „Það hlýtur að vera ákall fólksins í landinu að þessir flokkar búi til stjórn,“ sagði hann.