fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Segir að Flokkur fólksins sé óstjórntækur – „Fór langt með að tala sig út úr ríkisstjórn í leiðtogaumræðunum“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 1. desember 2024 19:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurður Kári Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Flokkur fólksins hafi unnið mikinn sigur í kosningunum, en flokkurinn hlaut 13,8% atkvæða og 10 þingsæti.

Sigurður segir hins vegar að flokkurinn sé óstjórntækur og vísar til yfirlýsinga formannsins, Ingu Sæland. Sigurður segir í pistli sem hann birti á Facebook-síðu sinni í dag:

„Ég sagði í útvarpsviðtali á Rás 2 í vikunni að mitt mat væri að Flokkur fólksins væri ekki stjórntækur.

Þótt Inga hafi unnið mikinn persónulegan sigur í kosningunum, fór hún langt með að tala sig út úr ríkisstjórn í leiðtogaumræðunum á Ríkissjónvarpinu fyrr í dag.“

Sigurður fer yfir árangur hvers og eins flokks og stöðuna í heild í pistli sínum sem er eftirfarandi:

„Það munaði minnstu að svo færi að enginn stjórnmálaflokkur næði 20% í þessum kosningum. Slík niðurstaða hefði verið söguleg.

Samfylkingin er stærsti flokkurinn. Fylgi Samfylkingarinnar er 20,8%, þótt talað sé eins og hún hafi fengið 40,8%. Það fylgi tryggir henni 15 þingmenn, sem er mikil fjölgun, en hafa verður í huga að Samfylkingin galt afhroð í síðustu kosningum og fékk aðeins 6 þingmenn kjörna. Það munar ekki nema 1,4% á Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki og einum þingmanni.

Þótt Samfylkingin sé stærst hlýtur niðurstaðan að vera undir væntingum. Í aðdraganda kosninganna var flokkurinn að mælast upp undir 30%. Niðurstaðan er langt undir því og mun minna en t.d. þegar Össur var formaður. Þá var kjörfylgið í kringum 30%. Sá karl þótti hins vegar ekki fiska nægilega vel og aðrir tóku við.

Viðreisn getur örugglega líka vel við unað. Eins og Samfylkingin bætir Viðreisn vel við sig en flokkurinn var ekki stór fyrir. Sjálfum fannst mér Viðreisnarfólk bera sig í síðustu viku kosningabaráttunnar eins og þau væru búin að sigra, sem segir manni að þau hljóta að hafa verið að vonast eftir meira fylgi en 15,8%

Flokkur fólksins kom mest á óvart. Ég held að enginn hafi búst við því Inga Sæland myndi skora svona hátt. Inga hlýtur að koma til álita sem sigurvegari kosninganna og markaðskona ársins, enda fylgi flokksins fyrst og síðast persónufylgi hennar sjálfrar. Ég átti til dæmis ekki von á því að Flokkur fólksins yrði stærri en Miðflokkurinn, eftir öll lætin í kringum Sigmund og hans fólk.

Villtasta vinstrið geldur algert afhroð í þessum kosningum. Erindi Pírata var augljóslega liðið. Sósíalistar sýnist mér að hafi misst fylgi frá því í síðustu kosningum og í ljós kom að það var engin stemming fyrir Vinstri grænum. VG nær ekki einu sinni 2,5% fylgi og á því ekki rétt á framlagi úr ríkissjóði sem stjórnmálaflokkur. Það er erfitt að sjá að VG eigi sér einhverja framtíð. Það er eiginlega ekkert sem bendir til þess að svo sé.

Framsóknarflokkurinn er líka í vanda. Þótt Sigurði Inga hafi óvænt skolað inn á land í beinni útsendingu í sjónvarpinu áðan er þingflokkurinn stórkostlega laskaður. Lilja Alfreðsdóttir, Ásmundur Einar og Willum Þór öll utan þings og þingflokkurinn hefur skroppið saman.

Ég átti von á því að fylgi Sjálfstæðisflokksins yrði aðeins meira því mér fannst meðbyrinn með flokknum vera að aukast mjög mikið dagana fyrir kosningar eftir að skoðanakannanir höfðu gefið vísbendingar um lítið fylgi. 19,4% fylgi á landsvísu er lítið í sögulegu samhengi, en mun betra en það sem í stefndi og varnarsigur.

Við sem styðjum Sjálfstæðisflokkinn þurfum samt að vera heiðarleg við okkur sjálf, líta inn á við og greina hvað flokkurinn getur gert til að nálgast þann styrk sem hann áður hafði.

Það blasir auðvitað við að það hefur veruleg og neikvæð áhrif á fylgi Sjálfstæðisflokksins þegar fyrrverandi ráðherrar flokksins bjóða sig fram fyrir aðra flokka og gerast jafnvel beinir eða óbeinir forystumenn eða hugmyndafræðingar þeirra og byggja á þeirri vegferð sinni að stórum hluta á stefnumálum Sjálfstæðisflokksins. Það blasir líka við að á meðan Sjálfstæðisflokkurinn nær ekki almennilega vopnum sínum í Reykjavík, bæði í borgarmálum og landsmálum, þá hefur það áhrif á gengi flokksins á landsvísu.

Grunnstefna Sjálfstæðisflokkins er mjög góð og hún á fullt erindi við þjóðina. En á meðan fylgi við þá stefnu dreifist á fleiri stjórnmálaflokka og flokkurinn nær sér ekki betur á strik í stærsta sveitarfélaginu þá verður drátturinn alltaf þyngri en ella.

Framhaldið verður áhugavert. Það blasir ekki beinlínis við hvaða flokkar muni mynda næstu ríkisstjórn.

Ég sagði í útvarpsviðtali á Rás 2 í vikunni að mitt mat væri að Flokkur fólksins væri ekki stjórntækur.

Þótt Inga hafi unnið mikinn persónulegan sigur í kosningunum, fór hún langt með að tala sig út úr ríkisstjórn í leiðtogaumræðunum á Ríkissjónvarpinu fyrr í dag.

Mér fannst Þorgerður í þessum umræðum líka kippa Kristrúnu niður á jörðina með því að benda á að hún væri með fleiri stjórnarmyndunarmöguleika á hendi en Samfylkingin.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta spilast.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Réðst á lögreglumann hjá bráðamóttökunni

Réðst á lögreglumann hjá bráðamóttökunni
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Dagur kveður borgarstjórn eftir nær aldarfjórðung – „Ég elska Reykjavík“

Dagur kveður borgarstjórn eftir nær aldarfjórðung – „Ég elska Reykjavík“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“
Fréttir
Í gær

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello