Óskað var eftir aðstoð lögreglu í miðborginni í nótt vegna manns sem hafði verið meinaður aðgangur að húsnæði. Hann var sagður hafa tekið upp exi og reynt að brjóta sér leið inn með því að brjóta rúðu með öxinni. Maðurinn var handtekinn og er málið í rannsókn.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir einnig frá því að óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna vinnuslyss. Starfsmaður varð fyrir því óláni að skera sig á fingri og var hann fluttur á bráðamóttöku þar sem gert var að sáinu.
Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna innbrots í heimahús. Málið er til rannsóknar.
Tilkynnt var um umferðarslys þar sem maður féll á rafskútu. Var hann fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús til frekari skoðunar en hann reyndist vera með höfuðáverka.
Maður var handtekinn fyrir að sparka í bíl og kasta bjórkút. Var hann fluttur á lögreglustöð þar sem tekin var vettvangsskýrsla vegna brots á lögreglusamþykkt fyrir Reykjavíkurborg.
Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna manns sem ráðist hafði á dyraverði í miðbænum. Var hann handtekinn grunaður um brot á lögreglusamþykkt fyrir Reykjavíkurborg og neitaði hann jafnframt að segja til nafns að kröfu lögreglu. Maðurinn var vistaður í fangaklefa þar til hægt verður að ræða við hann.
Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna manns sem hafði í hótunum við fólk. Var hann mikið ölvaður en gekk sína leið eftir að lögregla hafði rætt við hann.
Tilkynnt var um umferðarslys á umráðasvæði lögreglustöðvar 2, sem er Hafnafjörður, Garðabær og Álftanes, en ekið hafði verið á umferðarskilti. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og lyfja. Var hann handtekinn og fluttur á lögreglustöð en látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.