Á meðan sumir láta kosningaspennuna og stressið renna úr sér í dag, og aðrir láta einfaldlega renna af sér, renndu aðrir sér í messu í morgun. Þeirra á meðal var biskup Íslands, Guðrún Karls Helgudóttir, sem predikaði í Hallgrímskirkju þennan fullveldisdagsmorgun sem jafnframt er fyrsti í aðventu.
Fagnaði Guðrún meðal annars góðri kjörsókn og sagði það heilbrigðismerki að margir upplifi að það geti haft áhrif með atkvæði sínu. „Stundum er sagt að forsenda þess að fá að kvarta yfir kosningaúrslitum sé að mæta á kjörstað,“ sagði biskupinn. „En til þess að sannfæra heila þjóð um að mæta á kjörstað þarf hún fyrst að trúa því að það sé til einhvers, að hún geti raunverulega haft áhrif. Í gær mættu um 200 þúsund Íslendingar á kjörstað í þeirri trú að þeirra atkvæði skipti máli. Eftir sex vikna karp og kappræður voru 200 þúsund Íslendingar í það minnsta sammála um að atkvæði þeirra skipti máli.“
Biskup Íslands minnti á kjörstaðinn sem lokar aldrei.
„Í gær kusum við í þeirri von að heimurinn okkar yrði fyrir vikið betri. En gleymum því aldrei að við getum, hvern einasta dag sem við lifum kosið að gera heiminn okkar betri. Sá kjörstaður lokar aldrei!
Við getum kosið að gera góðverk. Við getum kosið að gefa af okkur og við getum kosið að aðstoða annað fólk við sín góðverk. Við getum kosið að vera hendur Guðs í heiminum.“
Þá minnti biskupinn á það að rétt um fimm þúsund manns þurftu að stuðning jólaaðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar um síðustu jól.
„Ég hef þær væntingar til íslensks samfélags að allar manneskjur geti um þessi jól, glaðst, gefið gjafir og átt góðar stundir með ættingjum og vinum, ekki síst börnin. Það er brýnt að þau upplifi öll gleði og frið. En til þess að það geti ræst verðum við að hjálpast að.
Fyrir síðustu jól studdi Hjálparstarf kirkjunnar 1.724 fjölskyldur. Gert er ráð fyrir að svipaður fjöldi muni þurfa á stuðningi að halda þessi jól.
Á þessari aðventu bið ég fyrir þeim er skipuleggja jólaaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar, ég bið fyrir öllum þeim sem þurfa á aðstoð að halda þessi jólin, og ég bið þess að þörfin verði minni næstu jól.“
Jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar hófst í dag með formlegum hætti. Henni er ætlað að mæta þörfum þeirra fimm þúsund einstaklinga hér á landi sem þurfa á aðstoðinni að halda hver jól auk þess sem söfnunin styrkir starfsemi Hjálparstarfsins erlendis.
Lesa má meira um jólaaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar og hvernig hægt er að leggja henni lið hér.