Þann 25. september árið 2023 gerði Reykjavíkurborg samkomulag við Valgeir Reynisson vegna tjóns hans af aðkomu Reykjavíkurborgar að gerð sjónvarpsþáttanna Fósturbörn.
DV fjallaði um málið sumarið 2023 eftir að Valgeir hafði stefnt Sýn hf. og Barnavernd Reykjavíkur vegna framleiðslu og sýningar þáttar af Fósturbörnum af Stöð 2. Í þættinum kom sonur Valgeirs fram, sem var á þeim tíma fjögurra ára gamall. Var þetta gert án vitundar Valgeirs og móður drengsins, og án heimildar þeirra, en á þessum tíma fóru þau enn með forsjá drengsins sem hafði verið vistaður tímabundið utan heimilis af hálfu Barnaverndarnefndar Reykjavíkur.
Sjá einnig: Stefnir Sindra og Barnavernd Reykjavíkur fyrir dóm vegna Fósturbarna – Segir þáttinn hafa valdið örorku og dauðsfalli
Barnaverndarnefnd neyðarvistaði son Valgeirs sumarið 2017, en drengurinn var þá fjögurra ára, og gerði í framhaldinu sjónvarpsþátt um hann án vitundar foreldra hans. Barnavernd afhenti barnið til umsjár konu sem þá var starfsmaður Stöðvar 2, en hún tók þátt í gerð umrædds sjónvarpsþáttar. Foreldrar drengsins fréttu fyrst af þættinum þegar hann var sýndur á Stöð 2, en Valgeir fékk þá símtal frá vini sínum sem bar kennsl á son hans í sjónvarpsþættinum.
Ítrekaðar beiðnir nákomins ættingja um að fá barnið í sína umsjá voru hunsaðar af barnavernd. Segir Valgeir að niðurbrotið og áfallið sem hann varð fyrir af því að sjá þáttinn hafi verið notað gegn honum til að svipta hann forsjá barnsins fyrir dómi. Var úrskurðað að drengurinn færi í varanlegt fóstur hjá áðurnefndri konu sem var, eins og áður sagði, starfsmaður Stöðvar 2 er þátturinn var gerður og sýndur.
Valgeir segir að hann fái ekki að hitta drenginn nema tvisvar á ári, í eina og hálfa klukkustund í senn, í sérstöku húsnæði barnaverndar, með tvo eftirlitsstarfsmenn viðstadda. Segist Valgeir lifa reglusömu og heilbrigðu lífi í dag og hafa gert í áraraðir, en engu að síður sé umgengnin svo takmörkuð. Þess skal getið að móðir drengsins lést árið 2019.
Valgeir hefur afhent DV afrit af áðurnefndri sáttargjörð hans. Aðspurður hvers vegna hann opinberi þetta núna en ekki á þeim tíma þegar sáttin varð gerð segist hann þá ekki hafa viljað spilla fyrir framgangi annarrar málshöfðunar sem núna er komin á skrið.
Hefur hann nú stefnt barnavernd og íslenska ríkinu til viðurkenningar á bótaskyldu vegna tengslarofs hans við barn sitt, vanrækslu á skyldum til að sameina fjölskylduna og illrar meðferðar barnaverndar. Nýlega var málinu vísað frá Héraðsdómi á grundvelli óskýrleika í stefnu. Þeim úrskurði verður áfrýjað til Landsréttar.
Sem fyrr segir stefndi Valgeir bæði Reykjavíkurborg og Sýn vegna sýningar þáttanna Fósturbörn en við sáttina féll málið niður. Sáttin var hins vegar eingöngu á milli Valgeirs og Reykjavíkurborgar (vegna barnaverndar) en Sýn viðurkenndi engin brot í málinu.
Hins vegar var þátturinn, sem er aðgengilegur á Vísir.is, tekinn út eftir að Sýn hafði fengið í hendur stefnuna frá Valgeiri. Þátturinn var síðan settur aftur inn á Vísir.is og er þar nú aðgengilegur. Við það er Valgeir mjög ósáttur. „Ég vil að þátturinn verði tekinn út því barnavernd hefur viðurkennt að þarna hafi verið framið gróft brot. Sýn hefur ekki einu sinni beðið afsökunar og ekki heldur barnavernd. Mér þykir vera algjört lágmark að þátturinn verði tekinn út,“ segir hann.