Öllu hundafólki er boðið að koma með hundana sína ókeypis í Bíó Paradís sunnudaginn 10. nóvember kl. 14 á gamanmyndina, Hundur fyrir rétti (Dog on Trial).
„Allir hundaeigendur sem mæta með hund á þessa sérlegu hundasýningu fá frítt in og það verður hundanammi til sölu í sjoppunni. Hundarnir geta fengið sérsæti meðan pláss leyfir en eigendur þeirra mega líka hafa þá sætinu hjá sér ef þeir vilja,“ segir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradís. Hún minnir á að allir hundar eru á ábyrgð eigenda sinna á bíósýningunni.
Hrönn segir að myndin sé bráðfyndin saga um ungan kvenlögfræðing sem sérhæfir sig í að verja dýr. Hún tekur að sér vonlaust mál, að verja hund sem á sér engar málsbætur. Myndin vann Palm Dog, sérleg hundaverðlaun á kvikmyndahátíðinni Cannes 2024. Kvikmyndin var frumsýnd í vikunni sem opnunarmynd Evrópsks kvikmyndamánuðar sem stendur til 7. desember.
„Við hér í Bíó Paradís ákváðum að brydda upp á einhverju skemmtillegu og krúttlegu. Það veitir ekki af í skammdeginu og allri pólitíkinni í kringum okkur í ofanálag. Við hlökkum til að sjá hvernig viðtökurnar verða en erum ekki í vafa um að þetta verður sérlega skemmtilegt sunnudagsbíó,“segir Hrönn sem tekur fram að myndin, Hundur fyrir rétti, er nú í sýningum í Bíó Paradís.