fbpx
Þriðjudagur 12.nóvember 2024
Fréttir

Bjarni reiddist við Stefán Einar: „Þetta er auðvitað mjög ómerkilegt af þér“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 9. nóvember 2024 17:22

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það fauk í Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, í viðtali hans við Stefán Einar Stefánsson í þættinum Spursmál á mbl.is á föstudag.

Í umræðu þeirra um útlendingamál ofbauð Bjarna málflutningur þáttastjórnandans og sakaði hann um ómerkilegheit.

Stefán Einar benti Bjarna á að hér væri að finna á meðal flóttamanna og hælisleitenda menn sem væru meðlimir í hryðjuverkasamtökum. Einn slíkan hefðu blaðamenn Morgunblaðsins sjálfir fundið en ekki lögregla og velti Stefán Einar því upp að margir fleiri svo vafasamir pappírar hlytu að vera á meðal okkar í samfélaginu, sem lögregla hefði ekki hugmynd um.

Sagði Stefán Einar þetta væra til marks um að við hefðum engin tök á landamærunum. Bjarni benti á að hann og Sjálfstæðisflokkurinn hefðu staðið að lagabreytingum sem hefta fjölskyldusameiningar auk þess sem ný lögreglulög stuðluðu að auknu eftirliti með vafasömu fólki sem kemur hingað til lands.

Stefán Einar hafði fært Svandísi Svavarsdóttur, formanni VG, sömu upplýsingar (þ.e. um meintan hryðjuverkamann í landinu) nokkrum dögum áður og sagði síðan:

„Ég er ekki viss um að almenningur á Íslandi sé jafn mikið í rónni og þú og Svandís eruð yfir þessu.“

Þessi athugasemd fór vægast sagt illa í Bjarna sem sagði:

„Þetta er auðvitað mjög ómerkilegt af þér að bera mína stefnu í þessum málum saman við það sem Svandís er að gera og það er líka mjög ómerkilegt af þér að segja að ég sé bara alveg í rónni yfir þessu. Þegar ég hef einmitt verið að beita mér fyrir auknum heimildum, við höfum verið að setja fjármagn í lögregluna og við höfum verið að koma í veg fyrir fjölskyldusameiningar, til dæmis frá þessu svæði út af þeirri reynslu sem við höfum haft. Þannig að við höfum verið að breyta lögum og setja peninga í þetta.“

Bjarni sagði ennfremur: „Ég held að lögreglan þurfi að hafa ríkari heimildir og betri stefnu um að deila með íslenskum almenningi upplýsingum um það sem hún er raunverulega að fást við. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að lögreglan veit meira en þú heldur að hún viti. Lögreglan er að skoða fleiri tilvik en þú heldur að hún sé að gera og lögreglan er að gera það sem hún hefur heimildir til að gera innan valdheimilda sem lög veita henni til þess að bregðast við. En því eru takmörk sett. Og við höfum talað fyrir því í þinginu að lögreglan hafi allar þær heimildir sem nauðsynlegt er til þess að ná árangri og við höfum ekki fengið mikinn stuðning, sérstaklega ekki frá flokkunum sem núna eru að mælast hæstir í könnunum.“

Sjá nánar á mbl.is. Í myndbandi þáttarins hefst viðtalið við Bjarna rétt eftir 30. mínútu og ofannefnd snörp orðaskipti hefjast eftir 48. mínútu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

„Þetta er eiginlega fáránlegt kl. 23 þann 11. nóvember!“

„Þetta er eiginlega fáránlegt kl. 23 þann 11. nóvember!“
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Guðni segir Framsókn oftast hafa reynst þjóðinni best – Hefur mikla trú á nýjum liðsmanni flokksins

Guðni segir Framsókn oftast hafa reynst þjóðinni best – Hefur mikla trú á nýjum liðsmanni flokksins
Fréttir
Í gær

„Ólíkt staðhæfingum Jóns er staðreyndin sú að Heimildin á enga aðkomu að gerð leyniupptaka“

„Ólíkt staðhæfingum Jóns er staðreyndin sú að Heimildin á enga aðkomu að gerð leyniupptaka“
Fréttir
Í gær

Fjölskylda með ungt barn nærri hrifsuð á haf út í Reynisfjöru – „Ég er enn þá reiður út í þessa foreldra“

Fjölskylda með ungt barn nærri hrifsuð á haf út í Reynisfjöru – „Ég er enn þá reiður út í þessa foreldra“