Ekki er búist við því að veðrinu sloti fyrr en seint í kvöld en á Vestfjörðum má til dæmis gera ráð fyrir suðvestanstormi og éljum. Hvassast verður norðantil á Vestfjörðum þar sem hviður geta farið yfir 35 metra á sekúndu. Búast má við éljagangi með takmörkuðu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Ekkert ferðaveður verður á þessum slóðum.
Gular viðvaranir eru svo í gildi á Faxaflóa, Breiðafirði, Miðhálendinu, Austurlandi og Austfjörðum en þar verður varasamt ferðaveður í allan dag og hviður staðbundið yfir 30 til 35 metrar á sekúndu.
Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að kröpp og dýpkandi lægð, skammt suðvestur af Reykjanesi, valdi þessu vonskuveðri en lægðin hreyfist norður á bóginn.
„Gengur á með hvassri sunnanátt eða stormi, rigningu og hlýindum, en þurrt að kalla á Norður – og Austurlandi. Þegar lægðin fer skammt undan Vestfjörðum, gengur í suðvestanstorm eða -rok á norðanverðu landinu, jafn vel staðbundið ofsaveður norðvestantil, með skúrum eða éljum. Reikna má með hríðarveðri á Vestfjörðum og Ströndum um tíma eftir hádegi og því ekkert ferðaveður á þeim slóðum.“
Veðurfræðingur bendir á að gular viðvaranir séu í gildi um mest allt land sem breytast í appelsínugult fyrir norðan upp úr hádegi. Syðra veður talsvert hægara en dálitlar skúrir en það lægir um allt land í kvöld og í nótt og rofar til.
„Víða varasamt ferðaveður í dag og er fólk því hvatt til að sýna aðgát, tryggja lausamuni og helst fresta ferðalögum norðanlands síðdegis, ef hægt er. Suðaustankaldi, víða skúrir og milt veður á morgun, en yfirleitt bjartviðri og nálægt frostmarki á Norður- og Austurlandi. Útlit helgarinnar sveiflukennt, væta með köflum og milt á laugardag, en órólegt veður og kólnandi á sunnudag, jafnvel slydda eða snjókoma til fjalla.“