Sjúkratryggingar Íslands hafa lokið samningsgerð vegna lýðheilsutengdra aðgerða fyrir árið 2024. Samningarnir gilda til áramóta en samhliða er unnið að samningum til lengri tíma. Lýðheilsutengdar aðgerðir eru skurðaðgerðir og önnur inngrip sem eru ekki bráðaaðgerðir og yfirleitt ekki langtíma- eða endurtekin meðferð við langvinnum veikindum. Þessar aðgerðir eru valkvæðar þannig að hægt er að skipuleggja þær fram í tímann og eiga það sammerkt að geta komið viðkomandi einstakling aftur til heilsu og í samfélagslega virkni. Það er mikill ávinningur fyrir einstaklinga og samfélagið allt að auka aðgengi að slíkum aðgerðum.
„Hér er um að ræða aðgerðir sem hafa mikil áhrif á lífsgæði fólks. Markmiðið sem unnið hefur verið eftir er að tryggja sjúklingum jafnt og tímanlegt aðgengi að mikilvægri heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór bendir jafnframt á að þeir samningar um lýðheilsutengdar aðgerðir sem hafa verið í gildi á þessu ári hafi nýst vel, sýnt fram á árangur og stuðlað að skilvirkari nýtingu alls heilbrigðiskerfisins og mannauðsins sem þar starfar.
Samningar um lýðheilsutengdar aðgerðir falla vel að heilbrigðisstefnu til ársins 2030 þar sem þær tryggja jafnt og tímanlegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Á árinu 2024 var samið um kaup á samtals 710 liðaskiptaaðgerðum á bæði hné og mjöðm, 190 kviðsjáraðgerðum vegna endómetríósu, 138 bakaðgerðum vegna brjóskloss og þrenginga í mænugöngum og allt að 840 augasteinsaðgerðum. Aðilar að samningum Sjúkratrygginga vegna aðgerðanna árið 2024 eru Cosan ehf., Klíníkin ehf., Lentis ehf. og Stoðkerfi ehf.
,,Við erum afar ánægð að hafa náð að klára samninga þessa árs og erum byrjuð á því að koma þessum aðgerðarhópi í fastari skorður. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir fjölda fólks sem hefur þurft að bíða lengi eftir þessum aðgerðum,“ segir Sigurður Helgi Helgason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.
Samhliða kaupum Sjúkratrygginga á lýðheilsutengdum aðgerðum fyrir árið 2024 hefur verið unnið að samningum til lengri tíma til að tryggja jafnræði, fyrirsjáanleika, aukið aðgengi og samfellu í þjónustunni. Lagt er upp með að þeir samningar taki við núgildandi samingum um áramót og taki jafnframt til brjóstaminnkunaraðgerða og efnaskiptaaðgerða til viðbótar við þá aðgerðarflokka sem þegar hefur verið samið um. Stefnt er að því að þeir samningar verði að minnsta kosti til þriggja ára.