„Þetta er mjög óvenjulegt. Norðmennirnir hafa greinilega ekki verið jafn heppnir og venjulega,“ sagði Pétur Hrafn Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Íslenskrar getspár, þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær.
Á síðu 2 í blaði dagsins er rætt við hann um þá óvenjulegu stöðu sem upp var komin í Víkingalottóinu, en þar til í gærkvöldi hafði fyrsti vinningur ekki gengið út síðan 15. maí síðastliðinn.
„Við höfum ekki neina skýringu á þessu – þetta er náttúrulega bara lottó – en vissulega er þetta óvenjulegt,“ sagði Pétur.
Dregið var í Víkingalottóinu eftir að Morgunblaðið fór í prentun í gær og er skemmst frá því að segja að Norðmenn unnu báða stærstu vinningana. Sá sem hlaut fyrsta vinning fær rétt tæplega 3,7 milljarða og sá sem fékk annan vinning fékk 1.560 milljónir króna.
Norðmenn hafa í gegnum árin verið mjög sigursælir í Víkingalottóinu og fyrir því er einföld ástæða. Þeir eru duglegri en aðrir að taka þátt.
Hinn al-íslenski 3. vinningur skiptist í þrennt og fær hver um sig rúmlega 1,3 milljónir, miðarnir voru allir í áskrift.