fbpx
Miðvikudagur 06.nóvember 2024
Fréttir

„Ég er ekki aðdáandi Trumps en hann er eini forsetinn í langan tíma sem byrjaði engar nýjar styrjaldir á sínu kjörtímabili“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 6. nóvember 2024 15:55

Donald Trump. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er ekki aðdáandi Trumps en hann er eini forsetinn í langan tíma sem byrjaði engar nýjar styrjaldir á sínu kjörtímabili þegar hann var forseti. Hann leggur áherslu á að byggja upp Bandaríkin – það er þessi America First Policy – hann vill ekki eyða trilljónum dollara í stríðsbrölt úti í heimi, sem er í sjálfu sér jákvætt. Hann er hins vegar einangrunarsinni í viðskiptum, sem er neikvætt, hann eyðilagði t.d. fríverslunarsamninga sem átti að gera við Asíu og Evrópu á sínum tíma. En ég held að hann muni hafa minni áhuga á því að leysa deilur með hernaðarmætti en Biden, sem taldi það alltaf vera lausnina,“ segir Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, hagfræðingur, sérfræðingur í alþjóðaviðskiptum og þekktur álitsgjafi um alþjóðamál.

Hilmar er staddur í Bangkok í Tælandi en þar er hann að undirbúa væntanlegt rannsóknarleyfi sitt. Hann varð góðfúslega við beiðni DV um að gefa álit sitt á stöðu heimsmála í kjölfar kosningasigurs Donalds Trumps. DV spurði Hilmar hvaða áhrif kjör Trumps komi til með að hafa á þróun Úkraínustríðsins.

„Varðandi Úkraínustríðið þá er það þannig að ég held að það sé ekkert traust á milli Bandaríkjanna og Rússlands. Það sem breytist núna er að það getur orðið talsamband á milli Trumps og Pútíns en eins og staðan er núna á vígvellinum þá er Pútín með yfirhöndina og hann vill halda því sem hann er búinn að taka og sennilega taka meira. Ég hugsa að borgir eins og Kharkiv, sem er næststærsta borgin, og Odessa, séu dæmi um borgir sem hann vill taka. Þarna býr margt rússneskumælandi fólk. Og síðan taka yfir eitthvað af austurhlutanum, þetta snýst um að ná tökum á auðlindum sem þarna eru.

Trump hefur sagt að hann myndi semja um þetta á einum sólarhring. Ég held að það sé algjörlega óraunsætt, en eins og ég segi, það getur orðið talsamband á milli Trumps og Pútíns, en ég efast um að það verði samningar á næstunni. Það þjónar ekki hagsmunum Rússlands. Rússar líta svo á að Vesturveldin hafi margsvikið þá, t.d. við stækkun Nató.

Stækkun Nató frumhlaup?

Hilmar telur ólíklegt að Úkraínudeilan leysist á næstunni en líkurnar á friði hafi aukist. Hilmar segir að í Asíu, þar sem hann þekkir vel til, t.d. í Víetnam og Indónesíu, sé litið allt öðrum augum á Úkraínustríðið en hér í Evrópu, þessi ríki álíti að stækkun Nató hafi verið frumhlaup og hún hafi verið ögrun við Rússland. „Þau álíta að Vesturlönd hafi hlaupið á sig og eru tilbúin að greiða götu Rússlands á öllum sviðum. Stunda viðskipti við Rússland eins og ekkert sé og fara þangað í heimsóknir.“

Hilmar telur að Vesturlönd hafi stórlega ofmetið áhrifamátt viðskiptaþvingana á Rússland. Þær hafi haft sáralítil áhrif á Rússa sem hafi aukið viðskipti sín við Asíuríki. Hann bendir hins vegar á að Úkraínustríðið sé dæmi um að vopnayfirburðir nýtist ekki alltaf þegar ráðist er inn í stór lönd.

„Varðandi vopnayfirburði þá sýnir það sig að þegar stórveldi ráðast inn í stór lönd eins og Úkraínu þá gengur það oft mjög illa. Við sáum þetta í Víetnam og við sáum þetta í Afganistan, bæði með Sovétríkin og Bandaríkin. Sjáum þetta líka varðandi innrás Bandaríkjanna í Írak, að þessir hernaðaryfirburðir nýtast ekki og þetta hefur gengið mjög erfiðlega. Úkraína heldur enn eftir um það bil 80 prósentum af landinu en mig grunar að þeir eigi eftir að tapa töluvert meiru og þeir hafa verið að hopa undanfarið.“

Sérkennileg afstaða Norðurlanda

Hilmar þekkir vel til í Eystrasaltsríkjunum, hann ferðast þangað oft og hefur verið þar við kennslu. Hann segir að þar ríki mikill ótti við Rússland. „Eystrasaltsríkin eru mjög hrædd, austurhluti Lettlands og Eistlands eru byggðir mörgu rússneskumælandi fólki og þarna ríkir mikill ótti og óvissa um hvað geti gerst og hvorum megin þetta fólk lendi ef til styrjaldar kemur.“

Hilmar setur spurningamerki við niðurstöðu ráðherrafundar Norðurlandanna sem haldinn var í Reykjavík fyrir skömmu, en þar var tekið fyllilega undir friðarleið Zelenskyy Úkraínuforseta. „Þeir samþykktu friðaráætlun Zelenskyy og hún gengur ekki bara út á að Úkraína fari í Nató heldur líka að Úkraína megi skjóta langdrægum eldflaugum inn í Rússland.“

Hilmar telur algjörlega óraunhæft að ræða um inngöngu Úkraínu í Nató í nánustu framtíð. „Það er algjörlega marklaust að tala um þetta núna því líklegt er að þarna verði landamæradeilur lengi og Nató getur ekki verið með meðlimaríki sem er með óviss landamæri.“

Lítill áhugi fyrir aðstoð við Úkraínu

Hilmar telur nýja valdhafa í Bandaríkjunum hafa lítinn áhuga á aðstoð við Úkraínu. „Ég held að það sé ofboðslega lítill áhugi fyrir frekari aðstoð við Úkraínu. Þessa 60 milljarða aðstoð sem fékkst var mjög erfitt að fá í gegn og þar barðist þáverandi varaforsetaefni Trumps, J.D. Vance, eins og ljón gegn allri aðstoð við Úkraínu og flutti langa þingræðu í öldungadeildinni þar sem hann sagði að sér væri eiginlega sama um Úkraínu. Núna er hann að verða varaforseti og mun væntanlega hafa mikil áhrif á afstöðu Trumps. Það stefnir líka í að repúblikanar verði með meirihluta bæði í öldungadeild og fulltrúadeild og held að það sé lítill áhugi hjá þeim fyrir því að eyða meiri peningum í þetta stríð.“

„Ég er ekki viss um að Trump gangi svo langt að gera Úkraínu algjörlega berskjaldaða þannig að hún falli alveg, því að það yrði áfall fyrir Bandaríkin líka. En ég held að það sé lítill áhugi fyrir því að halda þessu áfram til lengdar og að þessi aðstoð muni fara minnkandi.“

Breytir litlu um stöðu Ísraels

Hilmar telur að kjör Trumps muni litlu breyta varðandi áhrif Bandaríkjanna á átökin fyrir botni Miðjarðarhafs. „Ég held að það sé nánast enginn munur á Trump og Biden í því máli, ég held að þar séu þeir á sömu blaðsíðunni. Gyðingar eru mjög valdamiklir í Bandaríkjunum og komast nánast upp með hvað sem er, nokkuð sem er viðkvæmt mál að tala um. En þegar kemur að Gaza-svæðinu og stöðu Ísraels þá er þetta eiginlega bara það sama. Ég sé þar nánast engan mun á þessum tveimur aðilum, báðir eru mjög hallir undir Ísrael og Trump er jafn mikið í vasanum á Netanyahu og Biden.“

Eins og áður segir er Hilmar að undirbúa rannsóknarleyfi í Bangkok en hann er vel að sér um stjórnmál og þjóðfélagsástand í Asíu. Þar er ríkur vilji fyrir auknum viðskiptum við Bandaríkin. Í rannsóknarleyfinu ætlar Hilmar að skrifa bók um Asíu, en hann verður gestaprófessor við Thammasat University í Bangkok. Væntanleg bók verður afrakstur rannsóknarverkefnis um hvaða áhrif aukin áhersla Bandaríkjanna á Asíu muni hafa á Evrópu. Titill rannsóknarverkefnisins er: „European security in a multipolar world of great powers: Will the US pivot to Asia? How will it affect Europe?“

„Þú getur ekki greint ástandið í Evrópu án þess að taka Asíu með í reikninginn. Evrópa hefur upplifað að þar séu Bandaríkjamenn með eins konar öryggisregnhlíf yfir. Ástæða er til að óttast að Bandaríkjamenn taki þessa öryggisregnhlíf í burtu,“ segir Hilmar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Um 240 þúsund Íslendingar spila tölvuleiki

Um 240 þúsund Íslendingar spila tölvuleiki
Fréttir
Í gær

„Eftir situr heil fjölskylda í sárum sem mun seint eða aldrei ná sér að fullu“

„Eftir situr heil fjölskylda í sárum sem mun seint eða aldrei ná sér að fullu“
Fréttir
Í gær

Trump með myrk skilaboð til innflytjenda í lokaræðunni – Segist eiga von á stórsigri

Trump með myrk skilaboð til innflytjenda í lokaræðunni – Segist eiga von á stórsigri
Fréttir
Í gær

Dómur kveðinn upp yfir ökumanni vegna hörmulegs dauðaslyss við Höfðabakka – Var að nota farsíma er hann lenti á manninum

Dómur kveðinn upp yfir ökumanni vegna hörmulegs dauðaslyss við Höfðabakka – Var að nota farsíma er hann lenti á manninum
Fréttir
Í gær

Úrskurðaður í nálgunarbann: Kom fyrir hlerunarbúnaði á heimili fyrrverandi

Úrskurðaður í nálgunarbann: Kom fyrir hlerunarbúnaði á heimili fyrrverandi
Fréttir
Í gær

Þráinn fékk þessa mynd og óhugnanlega hótun frá Facebook-vini sínum – „Þurrka út alla fjölskyldu þína“

Þráinn fékk þessa mynd og óhugnanlega hótun frá Facebook-vini sínum – „Þurrka út alla fjölskyldu þína“