Bankarnir græða á kostnað almennings í landinu. Þetta kemur fram í grein sem blaðamaðurinn Þórður Snær Júlísson birti á vefsíðu sinni í gær. Þar bendir hann á að af þeim tekjum sem stærstu þrír bankarnir hér á landi öfluðu fyrstu níu mánuði ársins hafi um 75 prósent þeirra verið í formi vaxtatekna af lánum.
„Þær mynda stóran hluta af hagnaði bankanna á sama tíma og svimandi háir vextir og verðbólga hafa aukið árleg vaxtagjöld heimila um tugi milljarða króna á örfáum árum. Þrátt fyrir að bankaskattur hafi verið lækkaður mikið og mikill árangur hafi náðst í því að lækka rekstrarkostnað banka, er vaxtamunur enn mjög hár. Í stað þess að lækka hann stungu bankarnir þrír ávinningnum af skattalækkuninni í vasann. Þeir notuðu hann til að auka arðsemi sína, og þar með hluthafa sinna.“
Þórður rekur að Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion hafi hagnast um 62,7 milljarða á fyrstu 9 mánuðum ársins. Bankarnir eigi þar að auki mikið eigi fé, alls 736 milljarða samanlagt.
„Það er 30 milljörðum krónum meira en það var í lok september í fyrra og um 50 milljörðum krónum meira en það var á þeim tíma fyrir tveimur árum. Þá er búið að taka tillit til allra arðgreiðslna og endurkaupa á hlutabréfum sem átt hafa sér stað á árinu, en slíkar greiðslur til hluthafa hlaupa á tugum milljarða króna. Bara Arion banki er til að mynda búinn að greiða arð og kaupa eigin bréf af hluthöfum í ár fyrir 25 milljarða króna, Íslandsbanki er búinn að greiða samtals um 19 milljarða króna með saman hætti og Landsbankinn greiddi 16,5 milljarða króna í arð til ríkisins í vor.“
Hreinar vaxtatekjur bankanna voru samanlagt 115,5 milljarðar á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins.
„Til samanburðar má nefna að vaxtagjöld heimila landsins hafa aukist um 71 prósent frá því sem þau voru á síðasta ársfjórðungi ársins 2021 og í það sem þau voru á öðrum ársfjórðungi yfirstandandi árs.
Til að átta sig á því hvað hreinar vaxtatekjur eru stór partur af starfsemi fjármálakerfisins má benda á að hreinar vaxtatekjur þeirra voru 72 til 76 prósent af öllum rekstrartekjum bankanna þriggja það sem af er ári. “
Þessar vaxtatekjur byggist á muni milli vaxta sem bankarnir borga fyrir að fá peninga að láni og svo þeim vöxtum sem þeir rukka fyrir að lána einstaklingum og fyrirtækjum fjármunum. Eða munur á inn- og útlánsvöxtum, vaxtamunur.
Þessi munur hafi aukist síðustu árin og er nú sögulega mikill í norrænum samanburði. Þetta sé að eiga sér stað þó að bankaskatturinn hafi verið lækkaður í kórónuveirufaraldrinum. Bankarnir kölluðu eftir þeirri lækkun með vísan til þess að þá væri hægt að draga úr vaxtamun.
„Bankarnir höfðu árum saman kallað eftir lækkuninni og sagt að með henni myndi vaxtamunur dragast saman. Lán til heimila og fyrirtækja yrðu, samkvæmt yfirlýsingum, ódýrari. Af því varð ekki. Þess í stað stungu bankarnir þrír ávinningnum af skattalækkuninni í vasann. Þeir notuðu hann til að auka arðsemi sína, og hluthafa sinna, en áætlað hefur verið að skattalækkunin hafi minnkað skattgreiðslur bankanna þriggja um samtals tólf milljarða króna fram til ársins 2024. “