Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit ríkislögreglustjóra voru með mikinn viðbúnað í hádeginu í dag í Sólheimum í Reykjavík eftir að tilkynning barst um kona væri þar í miklu ójafnvægi fyrir utan hús við götuna.
Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að óttast hafi verið að konan, sem var með ungbarn og jafnframt með hníf í hendi, myndi vinna barninu og/eða sjálfri sér skaða. Fjöldi viðbragðsaðila var kallaður á vettvang, meðal annars samningamenn frá embætti ríkislögreglustjóra auk þess sem leyniskyttur komu sér fyrir í nærliggjandi fjölbýlishúsi. Eftir töluverðar viðræður tókst loks að yfirbuga konuna en hvorki hana né barnið sakaði í aðgerðum lögreglunnar.
Á myndbandi sem sjá má hér fyrir neðan sést hvar lögreglan yfirbugar konuna og samningamaðurinn gengur á brott með barnið heilu og höldnu.
Í áðurnefndri tilkynningu kemur fram að konunni var komið undir læknishendur og barninu í umsjá barnaverndaryfirvalda. Lokað var fyrir umferð um Sólheima á meðan aðgerðum lögreglunnar stóð, en lokunum var aflétt um eittleytið.