Betur hefur gengið en á horfðist í Norðausturkjördæmi. Þar hefur tekist að opna alla kjörstaði og var kjörsókn tæplega 8 prósent klukkan 11 og þá ótalin utankjörfundaratkvæði. Frá þessu greinir Vísir.
Talsvert hefur snjóað í Fjarðabyggð en þar tókst að opna kjörstaði á tilsettum tíma. Enn er víða ófært á Austurlandi og áfram snjóar bæði á Norður- og Austurlandi og er útlit fyrir að það haldi áfram fram á kvöld. Vegagerðin vinnur hörðum höndum að því að tryggja leið kjósenda að kjörstöðum með því að halda vegum opnum og að opna þá vegi sem hefur verið lokað. Nánar má lesa um færðina hjá RÚV.
Kjörsókn í Suðvesturkjördæmi, Kraganum, var um 6,1 prósent klukkan 11 í morgun sem er nokkuð minna en í síðustu kosningum árið 2021. Þá höfðu á sama tíma um 6,6 prósent af kjörskrá mætt til kjörstaðar.