Í dag fara fram alþingiskosningar og því ráð að rifja upp hvað kjósandi má ekki gera á kjörstað en allir kjörstaðir voru opnaðir nú klukkan 9.
Dagur B. Eggertsson frambjóðandi Samfylkingarinnar gerði í byrjun vikunnar nokkuð misheppnaða tilraun til að vera fyndinn og hvatti í umræðum, á Facebook-síðu tengdaföður Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, til þess að kjósendur Sjálfstæðisflokksins myndu strika yfir nafn hans á kjörseðlinum.
Nokkurt uppnám varð vegna þessara orða enda liggur það skýrt fyrir að með því að strika yfir nafn frambjóðanda á öðrum framboðslista en þeim sem kjósandi greiðir atkvæði verður kjörseðilinn þar með ógildur.
Einnig var bent á það væri brot á kosningalögum að gefa villandi upplýsingar um hvernig bera á sig að við að greiða atkvæði.
Dagur heldur fast við það að um grín hafi verið að ræða en ekki viljandi tilraun til að afvegaleiða fólk sem hefur í huga að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.
Umfram allt hvað sem þú ætlar að kjósa. Mundu að taka Dag ekki bókstaflega. Ef þú vilt strika yfir nafn einhvers frambjóðanda þá verður hann að vera á framboðslistanum sem þú ætlar þér að kjósa.
Logi Már Einarsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar og oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi, fyrir þessar kosningar, braut kosningalög árið 2017 þegar hann greiddi atkvæði í þingkosningunum þetta ár en hann var þá formaður flokksins. Brotið fólst í því að hann tók 12 ára dóttur sína með í kjörklefann en samkvæmt 81. grein þágildandi kosningalaga mátti kjósandi bara vera einn í kjörklefanum.
Kosningalögum var breytt árið 2021 en meðal breytinganna var að leyfilegt er að hafa aðstoðarmenn með sér í kjörklefann ef til að mynda maður á af heilsufarslegum ástæðum erfitt með að greiða sjálfur atkvæði. Hvergi er lengur tekið fram að kjósandi verði að vera einn í kjörklefanum en í 87. grein segir:
„Kjósandi skal gæta þess að enginn geti séð hvernig hann greiddi atkvæði.“
Það ákvæði á þó einkum við um þegar kjörseðli er skilað í kjörkassann en best er að halda sig við að börnin geti ekki séð hvernig þú kýst og þá jafnvel sagt starfsmönnum kjörstjórnar og öðrum viðstöddum frá því enda myndi það spilla leynd kosninganna. Starfsmenn kjörstjórnar miða raunar almennt við að börn fari ekki með í kjörklefann séu þau byrjuð að tala. Því er heppilegast, kæri kjósandi, að ef þú átt barn eða börn að vera ekkert að taka þau með þér í kjörklefann.
Eitthvað hefur borið á því að kjósendur taki mynd af kjörseðli í kjörklefanum þegar þeir eru búnir að greiða atkvæði og birti hana á samfélagsmiðlum undir sínu nafni. Áður hefur komið fram að þetta er bannað samkvæmt kosningalögum og geri kjósendur þetta er kjörseðilinn ógildur en í 90. grein kosningalaga segir:
„Láti kjósandi sjá hvað er á seðli hans eða ef hann hefur gert mistök við merkingu hans er seðillinn ónýtur og má ekki leggja hann í atkvæðakassann.“
Birti kjósandi myndina eftir að hann hefur sett kjörseðilinn í kjörkassann er ill mögulegt að úrskurða atkvæðið ógilt en ekki eru ákvæði um það í kosningalögum að velja megi eitt atkvæði úr kjördeild viðkomandi kjósanda, sem greitt hefur verið sama framboðslista og sjá má á myndinni að viðkomandi hafi greitt atkvæði, og úrskurða það ógilt.
Þegar maður er með nokkuð stóran pappírsseðil fyrir framan sig getur kannski verið freistandi, sérstaklega fyrir listrænt fólk, að skrifa eða teikna eitthvað á hann. Gerir þú það hins vegar við kjörseðlilinn verður atkvæðið ógilt en í 87. grein kosningalaga segir:
„Kjósandi gætir þess, hvernig sem hann kýs, að gera engin merki á kjörseðilinn fram yfir það sem segir í lögum þessum.“
Eina merkið sem má setja á kjörseðilinn er X í ferninginn fyrir framan listabókstaf þess flokks sem maður ætlar að kjósa en þar að auki má strika yfir nöfn frambjóðenda á viðkomandi lista eða breyta röð þeirra.
Í nýju kosningalögunum eins og þeim eldri er bannað að vera með áróður á kjörstað. Slíkt hefur almennt ekki verið mikið vandamál en aldrei er góð vísa of oft kveðin og því er allt í lagi að minna á að það er bannað að hafa nokkuð það í frammi á kjörstað,
inna á að það er bannað að hafa nokkuð það í frammi á kjörstað sem getur haft áhrif á afstöðu kjósenda, með til dæmis merkjum, slagorðum og auglýsingum, sem getur haft áhrif á afstöðu kjósenda.