Síðustu tölur úr suðvesturkjördæmi bárust nú fyrir stundu, um klukkan 12.30 og lokatölur liggja því fyrir.
Samfylkingin gaf örlítið eftir á lokasprettinum þó að það hefði ekki áhrif á þingmannafjöldann. Samfylkingin er stærsti flokkur landsins með 20,8% fylgi og 15 þingmenn. Sjálfstæðisflokkurinn er skammt að baki með 19,4% og 14 menn. Samfylkingin bætir við sig 9 þingmönnum frá síðustu kosningum og Sjálfstæðisflokkurinn tapar tveimur en i nótt var staðan lengi vel sú að flokkurinn hélt sínum 16 þingmönnum sem hefði verið mikill varnarsigur.
Viðreisn endaði sem þriðji stærsti flokkurinn með 15,8% fylgi, bætir við sig 6 þingmönnum og hlýtur 11 alls.
Flokkur fólksins vann mikinn kosningasigur og er með 13,8 % fylgi og fær tíu sæti á þingi. Þá er Miðflokkurinn með 12,1% fylgi og átta þingmenn, sem er bæting um fimm.
Framsóknarflokkurinn er að tapa miklu fylgi, eins og búist var við, og er nú með 7,8% fylgi og fimm þingmenn alls sem þýðir að flokkurinn er að tapa 8 þingmönnum. Foringi þeirra Sigurður Ingi Jóhannsson nær ekki þingsæti eins og er en hann hefur verið í jöfnunarmannarússíbana í nótt. Þá er Sósíalistaflokkurinn með 4,0% fylgi og utan þings.
Ein stærstu tíðindin eru þau að Vinstri Grænir og Píratar eru dottin út af þingi. Vinstri Græn eru aðeins með 2,3% fylgi, sem er sögulegt afhroð, og Píratar eru litlu skárri með 3% fylgi.
Lýðræðisflokkurinn hefur síðan hlotið 1,0 % af töldum atkvæðum.
Kjörsókn var 80,2%