Fórnarlambinu, Younis Younis, var rænt þann 11. janúar í fyrra þegar fjórir menn; Kodar Faytrouni, Safwan Hussein, Ali Hamad og Abud Elkerdi ruddust inn á heimili hans. Faytrouni, mágur Younis, skipulagði ránið og fékk hina þrjá til að aðstoða sig.
Einn úr hópnum tók upp myndband af mannráninu og var það spilað í réttarsal í Parramatta í vikunni. Á því sést meðal annars þegar Younis er tekinn hálstaki í bíl og honum haldið föstum á meðan fjórmenningarnir hóta honum öllu illu. Á sama tíma hlustaði eiginkona Younis skelkuð á aðfarirnar.
Allir fjórir hafa játað sök í málinu enda sönnunargögn saksóknara óumdeild samanber fyrrnefnt myndband.
Dómari í málinu sagði í réttarsal að það væri ljóst að mennirnir hafi viljað hafa áhrif á val systurinnar á maka og reynt að þvinga Younis til að skilja við hana. „Þessi maður og samverkamenn hans hafa augljóslega brenglað viðhorf til kvenna.“
Endanlegur dómur í málinu hefur ekki verið kveðinn upp.