Á sama tíma og jákvæður viðsnúningur er á rekstri borgarsjóðs og Reykjavíkurborg skilar rekstrarafgangi á þessu ári og horfurnar eru mjög bjartar til framtíðar staglast borgarfulltrúar minnihlutans í borgarstjórn, með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar, á því að staða borgarinnar sé slæm, þvert á staðreyndir.
Í nýjum Náttfarapistli á Hringbraut fjallar Ólafur Arnarson um þann mikla mun sem er á rekstri ríkissjóðs og borgarsjóðs. Borgarsjóður verður gerður upp með 500 milljóna afgangi á þessu ári. Á næsta ári vex afgangurinn í 1,6 milljarða, í 4,6 árið 2026, 6,7 milljarða 2027, 9,6 milljarða 2028 og í 13 milljarða 2029.
Fyrir nokkrum dögum afgreiddi starfsstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fjárlög með 70 milljarða halla fyrir næsta ár og verður 2025 áttunda árið í röð sem vinstristjórn Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar skilar hallarekstri á ríkissjóði og hafa skuldir ríkisins tvöfaldast á þessu tímabili.
Þetta virðist alveg hafa farið fram hjá sjálfstæðismönnum, skrifar Ólafur.
„Það hljómar því innantómt í kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins núna fyrir alþingiskosningar að reyna að sverta fjármálastjórn borgarinnar í augum kjósenda. Upplýsingar liggja fyrir um að flokksmenn sem hringja út til kjósenda og biðja um stuðning vari annars vegar við hættu á vinstri stjórn og hins vegar við „Reykjavíkurmódeli“ sem einkennist af fjármálaóreiðu. Það er stórkostlega ósvífið að Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur verið í sjö ára samstarfi við Vinstri græna – sem þeir slitu svo sjálfir með látum – vari kjósendur við hættu á vinstri stjórn. Þeir hafa sjálfir verið burðarásinn í vinstristjórn í sjö ár. Rétt er að rifja upp að þegar Sjálfstæðisflokkurinn leiddi Katrínu Jakobsdóttur til öndvegis í vinstristjórn þeirra í lok árs 2017 gerðu þeir einnig Steingrím J. Sigfússon að forseta Alþingis. Þeir réttu manninum sem stjórnaði því að fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins var einn manna dreginn fyrir Landsdóm þá virðingar-og valdastöðu að gegna embætti forseta Alþingis og vera þar með einn af handhöfum forsetavalds. Varla hafa kjósendur Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 2017 gert ráð fyrir að þannig yrði farið með atkvæði sem þeir veittu forystu Sjálfstæðisflokksins í kosningunum!“
Ólafur segir baktal útsendara Sjálfstæðisflokksins um meirihlutann í Reykjavík ekki beinast aðeins að Samfylkingunni og Degi B. Eggertssyni, sem sjálfstæðismenn og sérstaklega Morgunblaðið virðist hafa á heilanum, heldur ráðist þeir einnig á samstarfsflokka Samfylkingarinnar í borginni, Viðreisn, Pírata og Framsóknarflokkinn.
Ólafur segir óvild sjálfstæðismanna í garð Dags B. Eggertssonar stafa af því að í 14 ár hafi hann verið í forsvari fyrir meirihlutum í borginni og tryggt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið valdalaus í minnihluta, úti í kuldanum, allan þann tíma. Þeir dagar þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafði öll völd í borginni séu liðnir og komi aldrei aftur.
Hann segir verðbólgu og vexti nú á niðurleið þrátt fyrir lausatök vinstristjórnar Bjarna Benediktssonar á ríkisfjármálunum; aðilar vinnumarkaðarins eigi heiðurinn af því en ekki ríkisstjórnin. Kjósendur kalli eftir breytingum og þjóðin þurfi nú hvíld frá Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum.
Náttfara í heild má lesa hér.