fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
Fréttir

Hildur mjög ósátt við Þorstein í Karlmennskunni – Vanþekking er eitt en óheiðarleiki annað

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 28. nóvember 2024 07:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, er allt annað en sátt við Þorstein V. Einarsson, sem oft er kenndur við Karlmennskuna, vegna færslu á samfélagsmiðlum um stefnu Sjálfstæðisflokksins.

„Í örfáum orðum tókst honum að saka Sjálfstæðisflokkinn um að hampa fjandsamlegri stefnu sem ali á ótta við trans fólk, fyrirlitningu á femínistum og andúð á öllum útlendingum á sama tíma og hann tengdi hugmyndir flokksins við hugmyndafræði versta hryðjuverkamanns í sögu Norðurlandanna,” segir Hildur í færslu sem hún birti á Facebook í gærkvöldi.

Í færslunni sem Hildur vísar til sagði meðal annars:

„Sem sagt, Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn hampa stefnu sem elur á rasisma, transfóbíu og sundrungu. Orðræðra frambjóðenda þeirra festir í sessi íhaldssamar hugmyndir um kyn, karlmennsku og kynhlutverk. Og það ýtir undir kynbundið ofbeldi.”

Í færslunni var einnig komið inn á skattalækkanaloforð Sjálfstæðisflokks og Miðflokks og það væri aðgerð til að ýta undir stéttaskiptingu og fátækt.

Getur ekki orða bundist

Hildur segir að ekki sé sjálfgefið að búa við tjáningarfrelsi, það séu forréttindi og forsenda þess að lýðræðisleg umræða fái notið sín.

„Í aðdraganda kosninga á umræðan það gjarnan til að súrna allverulega. Sum ummæli eru ekki svaraverð á meðan önnur eru þess eðlis að maður getur ekki orða bundist. Svo eru það ummælin sem maður trúir varla að hafi verið látin falla. Reynslan hefur kennt mér að það hefur lítið upp á sig að setja ofan í við handhafa réttlætisins. Mig langar samt að árétta nokkur atriði,“ segir Hildur og heldur áfram:

„Að tala um skattalækkanir sem „popúlískar töfralausnir“ er í besta falli fjarstæðukennt og lýsir mikilli vanþekkingu á viðfangsefninu. Vanþekkingin opinberast svo betur þegar áhrif skattalækkana eru sögð vera þau að skera þurfi niður og veikja opinberar stofnanir, sem muni valda því að það verði dýrara fyrir fólk að sækja sér þjónustu til hins opinbera. Síðan er því haldið fram að Sjálfstæðisflokknum sé „drullusama um þig“ nema þú eigir tugi milljóna eða hafir yfir tvær milljónir í mánaðarlaun,“ segir Hildur.

Vanþekking eitt en óheiðarleiki annað

Hún segir það einlæga sannfæringu sína að hægri stefnan, stefna Sjálfstæðisflokks, sé sú stefna sem geti best hjálpað öðrum.

„Þegar við Sjálfstæðismenn tölum um að gæta þurfi hófs í skattheimtu þá er það til þess að fyrirtækin geti vaxið og dafnað, boðið upp á eftirsóknarverð störf og góð laun. Skatttekjurnar af þessu eru síðan nýttar til að hjálpa þeim sem þurfa og bjóða upp á heilbrigðis- og menntakerfi fyrir alla, burtséð frá fjárhagsstöðu þeirra. Við Sjálfstæðismenn trúum því að þetta sé rétta leiðin áfram og stefna flokksins er leiðarljósið okkar á þeirri vegferð,“ segir hún.

Hildur segir að vanþekking sé eitt en óheiðarleiki annað.

„Þegar því er haldið fram að Sjálfstæðisflokkurinn hampi stefnu sem ali á rasisma, transfóbíu og sundrungu þá er eðlilegt að velta því fyrir sér hvort sannleikurinn skipti engu í lýðræðislegri umræðu. Ef talað er af nægri sannfæringu þá jafngildi það sannleikanum.“

„Slíkar tilraunir koma frá hatursfullum stað“

Hildur segir að stefna Sjálfstæðisflokksins sé skýr þegar kemur að þessu. Sjálfstæðismenn vilji byggja upp samfélag þar sem fólk býr við jöfn tækifæri óháð kynferði, kynhneigð, uppruna, trú eða öðrum þáttum. Áréttar hún að fjölbreytileiki þrífist best í frjálsu samfélagi.

„Sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins hef ég heyrt allskonar fabúleringar um stefnu flokksins. Það kemur enn fyrir að mér bregði og verði oft fullkomlega misboðið. Þegar brigslað er um að samhljómur sé á milli stefnu Sjálfstæðisflokksins og hugmyndafræði hryðjuverkamannsins sem framdi fjöldamorðin hryllilegu í Útey þá setur mann hreinlega hljóðan,“ segir Hildur sem endar færsluna á þessum orðum:

„Þetta er ekki í fyrsta og því miður örugglega ekki síðasta skiptið sem reynt er að skapa hugrenningatengsl á milli Sjálfstæðisflokksins og öfgafullra hugsjóna sem eiga ekkert skylt við hugmyndafræði og stefnu flokksins. Slíkar tilraunir koma frá hatursfullum stað og væri óskandi að hyrfu úr lýðræðislegri umræðu í okkar ágæta samfélagi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Jóhannes baunar á Kristrúnu – „Veruleg vonbrigði að sjá forsætisráðherra landsins fara með þetta fleipur á alþjóðavettvangi“

Jóhannes baunar á Kristrúnu – „Veruleg vonbrigði að sjá forsætisráðherra landsins fara með þetta fleipur á alþjóðavettvangi“
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Þetta gætu afleiðingarnar orðið ef gýs í Bárðarbungu

Þetta gætu afleiðingarnar orðið ef gýs í Bárðarbungu
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Vinsælasta kaffihús Hafnarfjarðar kveður – „Ég þakka fyrir mig“

Vinsælasta kaffihús Hafnarfjarðar kveður – „Ég þakka fyrir mig“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Mogginn varpar ljósi á tölvupósta Isavia eftir að Skúli í Subway tók félagið til bæna

Mogginn varpar ljósi á tölvupósta Isavia eftir að Skúli í Subway tók félagið til bæna
Fréttir
Í gær

„Örvænting framkvæmdastjórans er orðin ansi mikil – og þá getur það gerst að menn fari að segja ósatt“

„Örvænting framkvæmdastjórans er orðin ansi mikil – og þá getur það gerst að menn fari að segja ósatt“
Fréttir
Í gær

Sveitarfélög brutu á eldri borgurum

Sveitarfélög brutu á eldri borgurum