Starri Reynisson, fyrrum forseti ungliðahreyfingar Viðreisnar og frambjóðandi í síðustu þingkosningum, hefur sagt skilið við flokkinn og lýsir yfir stuðningi við Samfylkinguna í komandi kosningum. Þetta kemur fram í einlægri færslu Starra á samfélagsmiðlum.
„Eins og flestum sem til mín þekkja er sjálfsagt kunnugt þá tók systir mín eigið líf fyrir tæpum þremur árum. Hún tók það skref aðeins viku eftir að hún var útskrifuð af geðdeild Landspítalans. Aðstæður þar voru svo með öllu óboðlegar að mig grunar að dvölin þar, sem hefði átt að hjálpa, hafi í raun gert illt verra. Það er stórkostlegur brestur í velferðarkerfinu. Ástæðan er einföld, vanfjármögnun og blind aðhaldskrafa stjórnvalda á okkar viðkvæmustu stofnanir. Þetta er mér eðlilega hugleikið núna í aðdraganda Alþingiskosninga,“ skrifar Starri.
Hann segir upplifun sem þessa einfaldlega breyta sýn fólks á lífið.
„Upplifun sem þessi skekur alla manns tilvist niður í dýpstu rætur. Hún veitir manni að mörgu leyti nýja sýn á lífið, breytir gildismati manns og forgangsröðun. Mín helstu pólitísku hugðarefni áður fyrr voru einstaklingsfrelsi og Evrópusambandsaðild, en í dag er staða velferðarkerfisins númer eitt, tvö og þrjú á mínum lista. Það er brýn þörf á metnaðarfullri uppbyggingu í velferðarkerfinu. Ég treysti Samfylkingunni best til þess verkefnis. Þau eru bæði með vel úthugsað og þaulunnið plan og mannskapinn til að fylgja því eftir,“ skrifar Starri.
Hann segir marga spyrja sig, í ljósi sögu sinnar innan Viðreisnar, hvort að áherslurnar rúmist ekki innan þess flokks enda hafi flokkurinn lagt áherslu á geðheilbrigðismál. Starri játar því en segir ákvörðun sína byggjast á því að hann óttast hægri beygju Viðreisnar.
„Í Viðreisn er fullt af vel meinandi góðu fólki, vinir sem mér þykir vænt um. Viðreisn er líka vissulega að leggja áherslu á geðheilbrigðismálin, sem er vel. Kosningabarátta flokksins þykir mér þó vera heldur frasaþung og að niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu frátalinni er takmarkað af raunverulegum tillögum að úrbótum þar að finna. Frasar, stemning og smávegis fiff laga ekkert til lengri tíma.
Einn þeirra frasa sem hvað oftast má heyra úr þeim ranni er til dæmis “Hægri hagstjórn, vinstri velferð”. Í hugum flestra held ég að þetta séu ósamþættanlegar andstæður. Enda er það svo að vanfjármögnun velferðarkerfisins og miskunnarlaus aðhaldskrafa á stofnanir þess er kjarninn í téðri “hægri hagstjórn”. Í Viðreisn má einmitt finna glerharða, blákalda hægritaug. Það er ástæða þess að ég á ekki lengur samleið með þeim flokki, og þar er það ég sem hef breyst en ekki flokkurinn. Ég óttast mjög að sú taug verði ofan á við stjórnarmyndun að kosningum loknum,“ skrifar Starri.
Hann segir að íslenskt velferðarkerfi mega ekki við áframhaldandi hægri stjórn og því hafi hann ákveðið að styðja Samfylkinguna í komandi kosningum.