Áður höfðu fréttir borist af því að norðurkóreskir hermenn hafi verið sendir til að berjast með Rússum gegn Úkraínumönnum og nú hafa þeir snúið sér til Jemen til að fá nýja hermenn.
Financial Times segir að Rússar hafi fengið „mörg hundruð hermenn frá Jemen með því að nota vafasamar aðferðir, svik og jafnvel með þvingunum“.
Eru uppreisnarmenn úr röðum Húta sagðir aðstoða Rússa við þetta en þeir og Rússar eru sagðir eiga í leynilegu samstarfi. Í sumum tilfellum eru þeir sagðir hafa blekkt menn til að ganga til liðs við Rússa. Í staðinn fyrir aðstoðina eru Rússar sagðir hafa byrjað viðræður við Húta um að sjá þeim fyrir vopnum.
Financial Times ræddi við Jemena, sem féllust á að fara til Rússlands eftir að þeim hafði verið lofað vinnu, góðum launum og jafnvel rússneskum ríkisborgararétti.
Einn mannanna, Nabil að nafni, sagðist, gegn vilja sínum, hafa verið meðal 200 Jemena sem voru skráðir í rússneska herinn í september. Eftir komuna til Moskvu voru hann og fleiri neyddir til að ganga til liðs við herinn og sendir á vígvöllinn í Úkraínu.
Financial Times segir mennina vera „málaliða“ en líklega má efast um hversu gagnlegir þeir eru fyrir rússneska herinn. Sumir eru taldir hafa reynslu af hermennsku en langflestir hafa ekki hlotið neina þjálfun sem hermenn og margir þeirra vilja að sögn ekki vera í Rússlandi.
Það er rétt að hafa í huga að það eru ekki margir Jemenar sem hafa gengið til liðs við rússneska herinn fram að þessu en Norður-Kóreumenn hafa sent 10.000 til 12.000 hermenn til Rússlands.
En þessi frétt um Jemenana sýnir að Rússar eru stöðugt að leita að nýjum hermönnum og að samvinna Moskvuvaldsins og uppreisnarmanna í Jemen verður sífellt nánari.
Vladímír Pútín vill fyrir alla muni forðast að grípa til herkvaðningar því það yrði mjög óvinsælt meðal almennings ef gripið verður til hennar. Þess í stað er reynt að fá menn til að ganga til liðs við herinn með því að bjóða þeim hærri laun en áður eða með því að fá fanga til að fallast á að fara á vígvöllinn.
Rússar hafa mikla þörf fyrir hermenn því mannfallið í Úkraínu er gríðarlegt þessa dagana. Samkvæmt upplýsingum breska varnarmálaráðuneytisins missa Rússar rúmlega 1.000 hermenn á dag um þessar mundir.