fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
Fréttir

Endurheimta búnað úr mathöllinni sem aldrei varð

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 27. nóvember 2024 16:30

Til stóð að opna mathöll að Vesturgötu 2 í Reykjavík. Mynd/Skjáskot Já.is.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrotabú fyrirtækisins Vietnam cuisine hefur samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur endurheimt ýmsan búnað sem tilheyrði mathöll sem fyrirtækið ætlaði að opna að Vesturgötu 2 í Reykjavík en húsið er einna þekktast fyrir það að þar var áður til húsa Kaffi Reykjavík. Fyrirtækið var í eigu hins þekkta kaupsýslumanns Quang Lé sem sætt hefur lögreglurannsókn vegna gruns um margvíslega brotastarfsemi. Eigendur húsnæðisins höfðu yfirtekið búnaðinn eftir að þeir riftu leigusamningi við fyrirtækið.

DV hefur áður fjallað um uppgjör vegna þessarar mathallar sem aldrei varð neitt úr en Kærunefnd húsamála hefur komist að þeirri niðurstöðu að endurgreiða beri lyklagjald sem fyrirtækið Vietnam cuisine innheimti af aðila sem leigði aðstöðu í húsinu fyrir veitingastað sem viðkomandi ætlaði að opna í mathöllinni.

Gjaldþrota fyrirtæki Quang Le skipað að endurgreiða lyklagjald vegna leigusamnings sem aldrei var efndur

Þrotabú Vietnam Cuisine höfðaði málið á hendur eiganda Vesturgötu 2, Fjélagið-eignarhaldsfélag h.f.. Krafðist þrotabúið að búnaðurinn sem mun vera enn í húsnæðinu yrði tekinn með beinni aðfararaðgerð úr vörslu Fjélagsins. Um er að ræða 14 bása auk búnaðar sem tilheyrir hverjum og einum þeirra, pítsuofn, uppþvottafæribandalínu, loftræstisamstæðu, brunalokur, þrjá þakblásara og loks parket í stæðum.

Kröfuhafi

Fram kemur í úrskurðinum að grunnfjárhæð leigu sem Vietnam Cuisine átti að greiða var 3,4 milljónir króna á mánuði en Fjélagið rifti samningnum, sem gerður var í mars 2021, í mars á þessu ári eftir að engar greiðslur höfðu borist frá því í desember 2023 og Quang Lé var hnepptur í gæsluvarðhald.

Vietnam Cuisine hafði leyfi til að breyta húsnæðinu en þó með samráði við leigusalann, Fjélagið. Í apríl gekk Fjélagið að ábyrgðartryggingu sem Vietnam Cuisine hafði lagt fram til efnda á leigusamningnum, alls 7 milljónir króna. Fjélagið hefur gert kröfu í þrotabú Vietnam Cuisine vegna vangoldinnar leigu, um 370,8 milljónir króna.

Vietnam Cuisine var tekið til gjaldþrotaskipta í maí 2024 og í kjölfarið áttu Fjélagið og skiptastjórinn í viðræðum um umræddan búnað en framkvæmdir í húsnæðinu voru þá á lokastigi. Lýsti Fjélagið því yfir við skiptastjórann að búnaðurinn væri nú í eigu þess og vísaði í leigusamninginn sem ekki hefði verið efndur af hálfu Vietnam Cuisine.

Í aðfararbeiðninni vísaði skiptastjórinn í að um væri að ræða lausa muni sem væru í eigu þrotabúsins. Ákvæði leigusamningsins sem Fjélagið hafi vísað til eigi aðeins við um muni sem skeytt hafi verið við húsnæðið.

Básarnir 14 sem skiptastjóri krafðist þess að yrði skilað áttu að tilheyra hverjum og einum veitingastað sem ætlunin var að ættu í sameiningu að mynda mathöll. Í hverjum og einum þeirra voru uppþvottavél og handlaug en í hluta þeirra ýmis búnaður til eldunar. Krafðist skiptastjóri að þrotabúið fengi þetta allt til baka auk annars búnaðar sem áður hefur verið nefndur. Hann krafðist einnig stálhilla, stálbása, háfa, kæla og frysta sem voru í öllum básum.

Veðsett

Í málsvörn sinni sagði Fjélagið það vera skýrt að leigusamningurinn hefði kveðið á um að fyrirtækið sem eigandi hússins að Vesturgötu 2 myndi eignast við lok leigutíma allar breytingar og viðbætur sem gerðar yrðu. Sagði fyrirtækið básana naglfasta og ýmsan þann búnað sem skiptastjóri krefðist þess að fá hafa verið innréttaðan í húsið og þar með orðinn varanlegur hluti af því. Þar með fæli það í sér of mikið rask að fjarlægja búnaðinn. Vísaði Fjélagið einnig til þess að Vesturgata 2 væri veðsett og að það myndi lækka virði eignarinnar að verða við beiðni skiptastjórans að fjarlægja umræddan búnað úr húsnæðinu.

Í úrskurðinum segir að dómari hafi farið á vettvang ásamt lögmönnum málsaðila og skoðað búnaðinn. Dómari segir megnið af búnaðinum vera lausan og hægt sé að fjarlægja það sem naglfast sé án þess að valda tjóni á húsnæðinu.

Samkvæmt reikningum hafi Vietnamese cuisine keypt búnaðinn en ekki sé þó ljóst hvort þeir hafi allir verið greiddir.

Niðurstaða dómara er sú að þar sem reksturinn á mathöllinni hafi ekki verið hafinn og framkvæmdum ólokið þegar Vietnamese cuisine varð gjaldþrota sé eignarréttur þrotabúsisins á búnaðinum ótvíræður. Hann féllst ekki á það með Fjélaginu að riftun á leigusamningnum jafngilti lokum á leigutíma í ljósi þess að aðeins voru liðin 3 ár af leigusamnignum sem var upphaflega til 10 ára. Þar með var því þar með hafnað að við riftunina hefði Fjélagið eignast allan búnaðinn.

Fallist var því á kröfu skiptastjórans um að honum væri heimilt að endurheimta allan búnaðinn með aðfarargerð. Því er ljóst að það stefnir allt í að allt það sem tilheyrði mathöllinni að Vesturgötu 2, sem aldrei varð að veruleika, verði fjarlægt úr húsinu.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Páll ekki hrifinn af „derringi“ Halldórs Benjamíns – Myndi ekki henta sem formaður Sjálfstæðisflokksins

Páll ekki hrifinn af „derringi“ Halldórs Benjamíns – Myndi ekki henta sem formaður Sjálfstæðisflokksins
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Nýjustu refsiaðgerðir Biden gegn Rússlandi eru sagðar „gjöf“ til Trump

Nýjustu refsiaðgerðir Biden gegn Rússlandi eru sagðar „gjöf“ til Trump
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Þetta gætu afleiðingarnar orðið ef gýs í Bárðarbungu

Þetta gætu afleiðingarnar orðið ef gýs í Bárðarbungu
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Lýsa yfir óvissustigi vegna Bárðarbungu – Stærsti skjálftinn 5,1

Lýsa yfir óvissustigi vegna Bárðarbungu – Stærsti skjálftinn 5,1