Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi alls konar, er ljómandi sáttur með skopskyn Dags B. Eggertssonar. Hann segir að það skorti þó greinilega á skemmtilegheitin í Valhöll þessa daganna, svo mikið að efast megi um meðalgreindina þar á bæ.
Össur tjáir sig á Facebook um brandara Dags B. Eggertssonar, þar sem hann hvatti Sjálfstæðismenn til að strika yfir sig á kjörseðli. Grínið fólst í því að ef kjósandi Sjálfstæðisflokks strikar út frambjóðanda á lista annars flokks, þá telst atkvæðið ógilt. Morgunblaðið velti því jafnvel fyrir sér í dag að hvort brandari Dags væri saknæmur en í kosningalögum segir að það varði sektum að valda því með sviksamlegum hætti að atkvæði annars manns ónýtist.
Fyrrum ráðherrann furðar sig á þessu uppþoti, enda kjósendur Sjálfstæðisflokksins engir asnar og hafi eflaust áttað sig á því að Dagur fór með gamanmál. Það sýni kannski þá taugaveiklun sem sé í gangi í Valhöll þessa daganna að þeir taki andköf yfir laufléttum brandara og leyfi Degi almennt að slá sig hressilega út af laginu.
Össur skrifar:
„Dagur B. er í banastuði og besti brandarinn í kosningabaráttunni var þegar hann svaraði fúkyrðum einhverra Sjálfstæðismanna með því að benda þeim vinsamlegast á að strika sig bara út á kosningadaginn! Í Valhöll ríkir hins vegar panik þessa dagana enda með allt í skrúfunni. Eftir meitlað húmorískt innlegg Dags kom Andri Steinn Hilmarsson, framkvæmdastjóri þingflokks íhaldsins, fölur og sveittur í miðlana til að ásaka Dag um að afvegaleiða kjósendur. Andri Steinn undirstrikaði með andköfum að kjósendur flokksins mættu alls ekki strika Dag út eftir að krossa við D. Það myndi ógilda atkvæðaseðilinn! – Herra trúr! Ég held ekki að kjósendur Sjálfstæðisflokksins séu asnar. Framkvæmdastjóri þingflokksins virðist þó skv. ofangreindu allt annarrar skoðunar. Ég hef hins vegar vaxandi efasemdir um meðalgreindina í Valhöll. Fólk sem lætur Dag B. Eggertsson slá sig út af laginu með laufléttum brandara er kanski ekki best fallið til að reka kosningabaráttu. Það skýrir kanski hrakfarir Sjálfstæðisflokksins þessa dagana…“