Jón Ármann Steinsson, sem hefur áratugum saman rekið fyrirtæki undir heitinu Icelandia, er afar ósáttur við að menningar- og viðskiptaráðuneytið hafi veitt eigendum Kynnisferða heimild til að breyta nafni fyrirtækisins í „Ferðaskrifstofa Icelandia“ og nýta þar með heitið Icelandia sem Jón hafði einkarétt á. Þetta kemur fram í aðsendri grein á Vísir.is.
Þetta gerðist með úrskurði ráðuneytisins síðasta sumar vegna stjórnsýslukæru Kynnisferða á ákvörðum firmaskrár Skattsins sem hafnaði umsókn Kynnisferða um notkun á orðinu Icelandia í heiti fyrirtækisins.
Jón hefur ítrekað bent á að orðið Icelandia er ekki til í íslensku. Á þeim forsendum hafnaði Skatturinn umsókn Kynnisferða um notkun orðins í firmaheiti, þar sem orðið væri ekki til þá væri það sérstök uppfinning Jóns.
Jón hefur áður greint frá því að eigendur Kynnisferða hafi falast eftir því að kaupa firmaheitið Icelandia af honum og hótað honum er hann neitaði því.
Eigendur Kynnisferða hófu síðan að nota firmaheitið Icelandia Ferðaskrifstofa í heimildarleysi allt þar til ráðuneytið kvað upp áðurnefndan úrskurð í sumar. Jón sakar ráðuneytið um óvandaða stjórnsýslu og ýjar að spillingu. Hann bendir á að „Icelandia“ sé orðskrípi en ekki íslenskt orð, og því persónuleg uppfinning. Hann skrifar:
„MVF heimilaði nafnabreytinguna með stjórnvaldsúrskurði gegn andmælum firmaskrár sem vísaði í áratuga lagaþróun. Ein aðalforsenda MVF var að allir íslendingar töluðu ensku, og því skildu allir íslendingar að Icelandia væri tilvísun í Ísland. MVF úrskurðaði að fyrst Icelandia væri almennt íslenskt orð þá var firmaskrá óheimilt að synja Ferðaskrifstofu Kynnisferða ehf um nafnabreytinguna.
Málvísindasamfélagið kom augljóslega ekki að ákvörðun MVF enda hefðu málvísindamenn aldrei tekið þátt í svona skrípaleik. Þeir sem tóku ákvörðunina voru allt lögfræðingar sem þóttust vita sínu viti um íslenskt mál og þeirra er skömmin. Skyldu þeir hafa spurt Lilju Alfreðsdóttur álits? Hmm…“
Jón er sérstaklega gagnrýnin á að ráðuneytið hafi viðurkennt þetta nýyrði sem íslenskt mál án aðkomu málvísindamanna:
„Orðið Icelandia var tekið inn í tungumálið sem samheiti Íslands til þess redda Kynnisferðum fyrir horn. Hver annar hefði getað fengið orð eins og Icelandia skilgreint sem íslenskt? Þetta er ótrúlega ábyrgðarlaus stjórnsýsla ef rétt reynist. Að þetta hafi gerst án aðkomu málvísindasamfélagsins staðfestir að hér sé um málamyndgjörning sé að ræða sem er enn verra. Ég tel víst að enginn málvísindastofnun fá tilkynningu frá MVF um nýtt samheiti lýðveldisins Íslands.
Eftir stendur að Icelandia er orðið að almennu íslensku orði þrátt fyrr tilraunir firmaskrár til að vernda íslenskuna fyrir skaða sem þessum. En góðu fréttirnar eru að úrskurður MVF þýðir að við eigum öll lagalegan rétt á að nota orðið Icelandia sem hluta af firmanafni ef okkur sýnist svo.“
Sjá nánar á Vísir.is.