Maðurinn kvaðst hafa verið á ferðalagi í Frakklandi, París nánar tiltekið, þann 11. til 15. janúar í fyrra þegar hann uppgötvaði síðdegis þann 14. sama mánaðar að bæði debet- og kreditkortin hans væru horfin úr kortaveskinu. Fór hann inn á app varnaraðila (innsk.blm. ónafngreinds fjármálafyrirtækis) þar sem hann sá fjölda færslna með debetkortinu sem hann kannaðist ekki við og fyrsta færslan væri frá því um þrjú að nóttu til.
Maðurinn hafði umsvifalaust samband við kortafyrirtæki sitt á Íslandi og lét loka viðkomandi kortum. Hélt maðurinn því fram að um hafi verið að ræða tólf færslur með debetkortinu, þar á meðal tvær í hraðbanka, en engar með kreditkortinu.
„Samkvæmt yfirliti frá kortafyrirtækinu var meginþorri hærri færslnanna staðfestur með PIN númer en tvær lægstu færslurnar með snertilausri greiðslu. Sóknaraðili kveðst ekki vita fyrir víst hvernig óviðkomandi hafi komist yfir debetkort hans og PIN númer en telur líklegast að það hafi gerst þegar hann hafi farið á öldurhús um kvöldið og notað debetkortið til að borga í stöðumæli fyrir ungan mann sem hann hafi hitt þá um kvöldið en þá greiðslu hafi hann staðfest með PIN númeri kortsins,“ segir í umfjöllun nefndarinnar. Miðað við lýsingu mannsins dró þessi greiðsemi dilk á eftir sér.
Maðurinn gerði kröfu um að fá 579.617 krónur endurgreiddar ásamt vöxtum en þessu hafnaði viðkomandi fjármálafyrirtæki. Byggði fyrirtækið á því að úttektirnar með debetkortinu hefðu verið framkvæmdar af manninum eða með hans samþykki.
„Því til stuðnings vísar hann til þess að framvísun korts á afgreiðslustað og staðfestingu greiðslu með PIN númeri teljist vera sterk sannvottun greiðslu í skilningi laga nr. 114/2021. Greiðslufyrirmælin beri þar af leiðandi ekki annað með sér en að sóknaraðili hafi sjálfur heimilað greiðslurnar enda hafi hann einn kortið undir höndum og vitneskju um PIN númerið. Þá bendi varnaraðili að sóknaraðili hafi ekki sannað að debetkorti hans hafi verið stolið og að það hafi verið notað með ólögmætum hætti.“
Maðurinn benti á í málatilbúnaði sínum að færslurnar hafi margar hverjar verið á veitingastöðum og í söluturnum þar sem nokkuð augljóst sé að það þurfi vitorðsmenn til að ná út slíkum fjárhæðum á skömmum tíma. Það sé vísbending um að hann hafi orðið fyrir barðinu á skipulagðri glæpastarfsemi. Þá hafi hann fengið staðfestingu frá kortafyrritæki sínu að minnst einu sinni hafi verið reynt að nota kreditkortið með röngu PIN-númeri. Þótt báðum kortunum hafi verið stolið um leið hafi sömu aðilar aðeins komist yfir annað PIN-númerið.
Úrskurðarnefndin klofnaði í niðurstöðu sinni og vildi minnihluti hennar meina að maðurinn hefði sýnt af sér stórfellt gáleysi þegar hann gætti þess ekki að að þriðji aðili gæti komist yfir PIN-númerið með því einu að horfa yfir öxl hans.
Meirihluti nefndarinnar úrskurðaði manninum hins vegar í vil.
„Þótt á það verði fallist að sóknaraðili hafi sýnt af sér vangæslu við notkun kortsins við þær aðstæður sem lýst er í málavöxtum þá verður ekki talið að hann hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við meðferð kortsins eða upplýsingum því tengdu, eða brotið þannig gegn skilmálum varnaraðila, að sóknaraðili hafi firrt sig rétti til að krefjast niðurfellingar á færslum. Er þá m.a. litið til þess að sóknaraðili tilkynnti tafarlaust um þjófnað og ætlaða misnotkun á kortinu,“ segir í niðurstöðu meirihlutans.