Ragnar Þór Pétursson, fyrrverandi formaður Kennarafélags Íslands, er ekki bjartsýnn á lausn í kjaradeilu kennara. Hann segir sveitarfélögin liggja í þagnarbindindi í skjóli ríkissáttasemjara.
„Það sýnir hvað sveitarfélögin eru orðin ofboðslega ráðþrota í kjaradeilu kennara að þau reyna að gera ríkissáttasemjara ábyrgan fyrir því að ekki nokkur skapaður hlutur gerist á næstunni,“ segir Ragnar Þór í færslu á samfélagsmiðlum. „Ætla að liggja í skjóli hans í þagnarbindindi eins lengi og hann hrekur þau ekki út í kuldann og ekki lyfta litla fingri til lausnar.“
Vísar hann til þess að Ástráður Haraldsson, ríkissáttasemjari, hafi sett fjölmiðlabann á deiluaðila í kjaradeilu kennara. Síðan þá hafa birst fréttir af því að það sé kominn nýr taktur í viðræðurnar án þess að greint sé nánar frá því hvað það þýði.
„Öll þessi deila hefur, af sveitarfélaganna hálfu, verið röð biðleikja og þæfings,“ segir Ragnar Þór. „Eins og vandamálið hverfi ef þú hunsar það bara nógu kröftuglega. Þær eru því óskiljanlegar þessar endalausu „bjartsýnisfréttir“ í fjölmiðlum þegar það er augljóst úr mílu fjarlægð að ekkert er að gerast.“
Kennarar hafa beitt verkföllum í ákveðnum skólum og í mislangan tíma. Fjórir leikskólar eru í ótímabundnu verkfalli. Boðuð hafa verið ótímabundin verkföll í tíu öðrum leikskólum frá 10. desember.
Verkfalli í þremur grunnskólum er lokið og verkföll í þremur til viðbótar hófust í gær, 25. nóvember. Verkföll í fjórum grunnskólum til viðbótar eru boðuð frá 6. til 31. janúar.
Tveir framhaldsskólar eru í verkfalli til 20. desember, Menntaskólinn í Reykjavík og Fjölbrautaskóli Suðurlands. Þá lýkur einnig verkfalli Tónlistarskóla Ísafjarðar.