Í dag var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mál gegn fasteignasala, konu sem hefur verið ákærð fyrir fjárdrátt, en til vara umboðssvik, vegna 34 úttekta af vörslufjárreikningi. Viðskiptavinir fasteignasalans höfðu lagt þessa fjármuni, sem nema samtals rúmlega 115 milljónum króna, inn á vörslufjárreikninginn. DV fjallaði um málið í síðustu viku:
Fasteignaviðskipti eru viðkvæm viðskipti sem í mörgum tilvikum geta varðað aleigu þeirra sem í hlut eiga og því er brýnt að fjármunir sem lagðir eru inn á vörslufjárreikninga vegna fasteignaviðskipta séu öruggir. DV sendi fyrirspurn vegna málsins til Félags fasteignasala, spurði út í afskipti félagsins af þessu tiltekna máli og hvort tilvik af þessu tagi væri algeng.
Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri félagsins, hefur svarað fyrirspurn DV, og leitt í ljós að félagið hafði töluverð afskipti af málinu eftir símtal viðskiptavinar. Tilkynnti félagið málið til eftirlitsnefndar með fasteignasölum. Grétar ritar:
„Þess má geta að kaupendur og seljendur í fasteignaviðskiptum hafa aðgang að Félagi fasteignasala í símatímum vegna fasteignasala innan félagsins. Á grunni slíks samtals við viðskiptavin hófst þetta mál fyrir nokkrum árum en þá var mat Félags fasteignasala að skýringar sem gefnar voru um tiltekna fjármuni væru ekki með þeim hætti sem gera mætti kröfu um.
Í kjölfar þess kynnti félagið eftirlitsnefnd með fasteignasölum um málið en sú nefnd hefur eftirlit með að meðferð fjármuna viðskiptavina séu í hvívetna í samræmi við lög og að reglum um fjárvörslu sé fylgt en þar að baki eru strangar lagakröfur. Í kjölfar þessa var málið sent héraðssaksóknara.“
Grétar segir að misferli af því tagi sem hér er grunur um sé sjaldgæft:
„Slík mál eru sem betur fer mjög sjaldgæf en geta má tveggja mála er komu upp fyrir meira en 20 árum sem voru nokkuð viðamikil en í kjölfarið voru reglur hertar verulega.
Á hverju ári eiga sé stað um 12.000 – 14.000 fasteignaviðskipti og leggja fasteignasalar mikið upp úr að ströngum ferlum og reglum um fjárvörslu sé fylgt í hvívetna – slík mál eru þannig nánast óþekkt. Það er mjög miður að þetta mál hafi komið upp en mikilvægt að geta að málinu er vitaskuld ekki lokið enda dómur ekki fallinn.“