Á föstudaginn verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur mál sem héraðssaksóknari hefur höfðað gegn manni fyrir brot gegn valdstjórninni.
Hinn ákærði er 33 ára gamall maður með heimilisfang á Dalvík. Hann er sakaður um tvö brot gegn lögreglumönnum þriðjudagskvöldið 14. nóvember árið 2023, á bílastæði við Suðurlandsbraut í Reykjavík. Er hann annars vegar sakaður um að hafa ráðist á lögreglumann við skyldustörf með því að reyna að sparka með vinstra hné í lögreglumanninn er færa átti hinn ákærða inn í lögreglubíl.
Hins vegar er hann sakaður um að hafa skallað lögreglumann í höfuðið inni í lögreglubílnum þegar lögreglumaðurinn var að reyna að spenna á hann öryggisbelti.
Krefst héraðssaksóknari þess að Dalvíkingurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.