Útlit er fyrir mjög hvumleitt veður á kjördag, laugardaginn 30. nóvember. Töluverða úrkomu í formi rigningar, slyddu eða snjókomu um allt land og víða mikils hvassviðris.
Flestir Íslendingar þekkja það að taka þurfi laugardagsspá á mánudegi með nokkrum fyrirvara. Veður eru válynd á veturna á Íslandi en fljót að breytast.
Veðurstofa Íslands spáir að almennt verði norðaustanátt á kjördag með snjókomu eða slyddu norðanlands en rigningu við suðurströndina og heldur hlýnandi veðurfari.
Á höfuðborgarsvæðinu er spáð snjókomu eða slyddu um nóttina og morguninn en eftir hádegið rigningu. Vindur hins vegar undir 10 stigum.
Veðrið er víða verra á landsbyggðinni sem er ekki nógu gott því koma þarf atkvæðum langa leið, til Borgarness, Akureyrar og Selfoss. Hugsanlegt er þó að talið verði á fleiri stöðum ef veður hamlar samgöngum.
Að óbreyttu er versta veðrinu spáð á norðanverðum Vestfjörðum, Ströndum og norðanverðum Tröllaskaga. Stífri norðaustanátt í um og yfir 20 stigum með snjókomu eða slyddu.
Veðrið er lítið skárra í norðanverðum Þingeyjarsýslum og í Grímsey. Í Vestmannaeyjum verður einnig stíf austanátt en hlýrra og úrkoman í formi rigningar.