fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

María gleymir aldrei góðverki Skagamanna: „Fyrstu góðu minningarnar eftir hörmulegan vetur“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 25. nóvember 2024 09:17

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Akranes á sérstakan stað í hjarta Maríu Rutar Kristinsdóttur, oddvita Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi. María ólst upp á Flateyri og var sex ára gömul þegar hið skelfilega snjóflóð féll þann 26. október 1995.

Í aðsendri grein á vef Vísis rifjar hún upp þegar Skagamenn glöddu hjarta hennar og annarra ungra barna frá Flateyri sumarið eftir hinn erfiða vetur.

„Sex ára barn skynjar kannski ekki tilveruna og þann harm sem er alltumlykjandi dagana og mánuðina þar á eftir, nema einmitt í frekar barnslegum hugmyndum um sorg og gleði. Sex ára barn skynjar fjarlægð foreldra og titrandi taugakerfi þeirra. Sex ára barn skynjar að það er skrítið að vera allt í einu ekki heima hjá sér heldur í Reykjavík í margar vikur. Hvers vegna allt er breytt. Sex ára barn skilur ekki hvers vegna allt í einu er allt látið eftir því. En Lion King joggingalli og páfagaukurinn Kíkí fylgdu með aftur heim á Flateyri. Ég skildi það ekki þá en á sama tíma var fjölskyldan mín og nærsamfélagið að upplifa óraunverulegan sársauka og áfall af þeim skala sem fæst okkar geta skilið. Það var einmitt þarna sem seiglan, samtakamátturinn og samhugurinn bjó. Kraftur sem við Íslendingar þekkjum vel,“ segir hún í grein sinni.

Fyrstu birtudagarnir

Hún rifjar upp að sumarið eftir hörmungarveturinn 1995 hafi grunnskólabörnum á Flateyri verið boðið í sérstaka ferð á Akranes í boði ÍA.

„Um var að ræða nokkurra daga dvöl þar sem okkur bauðst að mæta á alls kyns íþróttaæfingar, vorum heiðursgestir á ÍA leik og fengum almennt bara að vera börn í friði. Þar sá ég teiknimyndastöðina Cartoon Network í túbusjónvarpi í fyrsta skipti á ævinni. Ég man að ég hugsaði með sjálfri mér „Vá – ég er stödd í einhvers konar stórborg þar sem teiknimyndir eru í boði allan sólarhringinn”. Þessir dagar á Akranesi voru fyrstu góðu minningarnar mínar eftir hörmulegan vetur,“ segir hún og bætir við að þetta hafi verið fyrstu birtudagarnir þar sem þá sjö ára barnið fékk að vera bara til, sparka í bolta, leika við vini og slappa af.

Alltaf þótt vænt um Akranes eftir þetta

„Ég hef alltaf haldið í þessar minningar. Og alltaf þótt vænt um Akranes fyrir vikið. Þetta var vafalaust ekkert brjálæðislegt umstang af hálfu Íþróttabandalagsins. En fyrir okkur börnin var þetta ógleymanlegt. Mikilvægt og eiginlega hjartabjargandi. Framlag samfélags sem ég hef alltaf þakkað fyrir og aldrei gleymt,“ segir hún.

María er í dag 35 ára og oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi – þar sem hjarta hennar slær og hún segist nú vera svo lánsöm að fá að kynnast Akranesi og Skagamönnum á nýjan hátt.

„Hvers vegna er ég að deila með ykkur sögunni af sex ára stelpunni sem fann birtuna á Skaganum? Jú, vegna þess að það eru kannski ekki alltaf sömu hagsmunir sem liggja á hjörtum Vestfirðinga, Vestlendinga, Strandamanna, Húnvetninga og Skagfirðinga. Sjónarmiðin eru oft ólík og reynslan sömuleiðis. Hagsmunir rekast jafnvel oft á. En það er samt sem áður alltaf þessi taug – þessi strengur og þessi sami skilningur á mikilvægi þess að standa saman þegar eitthvað bjátar á. Að bjóða fram hjálparhönd og vera sterkur málsvari fyrir jaðarbyggðirnar. Þessi sameiginlegi skilningur á því hvað það þýðir að búa við skerta þjónustu, við skort á innviðum, við óöryggi og óvissu. En ekki síst sameiginlegur skilningur á því hvers vegna maður velur það bara samt þrátt fyrir skortinn. Enda er hvergi betra að vera og tilheyra.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Maðurinn sem ók á Ibrahim: „Skelfilegt að enda ferilinn svona“

Maðurinn sem ók á Ibrahim: „Skelfilegt að enda ferilinn svona“
Fréttir
Í gær

Sjáðu hvað Trump sagði um Grænland eftir að hann var svarinn í embætti

Sjáðu hvað Trump sagði um Grænland eftir að hann var svarinn í embætti