Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tryggingafélagið Sjóvá-Almennar hf. til að greiða konu nokkurri bætur. Á greiðslan að koma úr ábyrgðartryggingu veitingastaðar sem konan starfaði hjá en hún varð fyrir vinnuslysi þegar hún var að ná í frosna ávexti í frystigeymslu staðarins. Konan slasaðist það illa að hún var metin til fullrar örorku hjá lífeyrissjóði.
Slysið átti sér stað sumarið 2019 og er málsatvik sögð í dómnum vera að mestu óumdeild. Konan starfaði sem þjónn í svokölluðu köldu eldhúsi staðarins. Fór hún í frystugeymsluna til að ná í frosna ávexti uppi í hillu. Til að ná upp í hilluna þurfti konan að stíga upp á tómt plastbretti sem var á gólfi frystigeymslunnar. Svo fór að brettið sporðreistist og konan féll í gólfið en konan sagði kassann hafa verið í um 180 sentímetra hæð.
Engin trappa var í fyrstigeymslunni en trappa var í nærliggjandi kæligeymslu en konan sagði þá tröppu ekki nothæfa á hálu gólfi frystigeymslunnar. Sagði hún starfsmenn engar leiðbeiningar hafa fengið um hvernig ætti að sækja vörur sem væru í slíkri hæð en það hafi þeir iðulega gert með þeim hætti sem hún gerði í umrætt sinn.
Konan sagði yfirmenn staðarins hafa verið vel meðvitaða um þetta verklag. Þegar hún féll lenti hún á hægri hliðinni og hlaut áverka á hægri öxl. Konan harkaði af sér í fyrstu en nokkrum dögum síðar gat hún ekki haldið áfram í vinnu vegna verkja og leitaði til læknis. Bæklunarskurðlæknir mat einkenni hennar á öxl til 20 prósent örorku. Sömuleiðis var konan metin til fullrar örorku hjá lífeyrissjóði frá slysdegi.
Sjóvá-Almennar samþykkti að konan fengi greitt úr slysatryggingu launþega en ekki úr ábyrgðartryggingu veitingastaðarins þar sem ekki hefði verið sýnt fram á saknæma vanrækslu af hálfu staðarins. Tryggingafélagið vísaði til þeirra trappa sem til staðar voru en konan ítrekaði að þær hafi ekki verið nothæfar á hálu gólfi frystigeymslunnar og að þar að auki hefði hún engar leiðbeiningar fengið um hvernig ætti að bera sig að við að sækja vörur í jafn mikilli hæð og raun bar vitni.
Konan bætti því einnig við að þar sem enginn nothæfur stigi hafi verið til staðar hafi vinnuaðstæður ekki verið fullnægjandi miðað við ákvæði laga um aðbúnað á vinnustöðum. Þetta vinnulag að stíga upp á laus plastbretti til að ná í vörur í mikilli hæð hafi bæði brotið í bága við lög og reglur Vinnueftirlitsins. Konan hafnaði einnig fullyrðingum Sjóvár-Almennra um að hún hafi átt að fá aðstoð samstarfsfólks en þennan dag hafi hún verið ein í kalda eldhúsinu og enginn til staðar til að aðstoða hana.
Sjóvá-Almennar sagði konuna hafa tekið þetta vinnulag upp hjá sjálfri sér. Konan hafi verið það reynd í starfi að hún hafi vel átt að vita að hún ætti að nota tröppur til að ná í vörur sem væru of hátt uppi fyrir hana. Tröppurnar á staðnum hafi hentað til notkunar í frystigeymslunni. Slysið megi þar með rekja til stórfellds gáleysis konunnar sjálfrar.
Í niðurstöðu Héraðsdóms segir að dómari og lögmenn málsaðila hafi kannað aðstæður í frystigeymslunni og að dómarinn hafi séð með eigin augum að gólfið í frystigeymslunni sé afar hált og að tröppurnar sem fullyrt hafi verið að konan gæti notað væru ekki mjög stöðugar, þótt þær væru skárri en tómt plastbretti.
Í dómnum er einnig vísað til vitnisburða annarra starfsmanna veitingastaðarins sem hafi staðfest þann framburð konunnar að starfsmenn í kalda eldhúsinu hafi ekki fengið neinar leiðbeiningar um hvernig ætti að bera sig við að sækja vörur í frystigeymsluna í mikilli hæð. Slíkt brjóti í bága við lög um aðbúnað á vinnustöðum. Þar með eigi konan rétt á bótum úr ábyrgðartryggingunni.
Segir í dómnum einnig að konan hafi sannarlega sjálf sýnt af sér gáleysi en það verði ekki metið til skerðingar á rétti hennar til bóta úr ábyrgðartryggingu veitingastaðarins hjá Sjóvá-Almennar hf.