Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur gefið út ákærur á hendur tveimur Albönum sem grunaðir eru um fíkniefnasölu á Akureyri. Annar maðurinn, Albi Simaili, er aðeins tvítugur að aldri en hann var handtekinn þann 15. október 2023 með 14,13 grömm af kókaíni og 33,78 grömm af maríhúana í fórum sínum.
Hinn maðurinn, Xhesi Hana er 25 ára gamall, en hann var hendtekinn mánuði síðar, þann 17. nóvember 2023, og var þá með í vörslu sinni tæp 20 grömm af kókaíni og 28,45 grömm af maríhúana, sem lögreglan ætlar að hafi verið til sölu. Þá var hann með um 235 þúsund krónur í reiðifé á sér.
Þá er Hana einnig ákærður fyrir að hafa dvalist á Íslandi eða Schengensvæðinu í leyfisleysi í 755 daga. Hann hafði aðeins heimild til að dvelja innan svæðisins í 90 daga en hafði dvalið í 845 daga þegar hann var handtekinn.
Ákærurnar voru báðar auglýstar í Lögbirtingablaðinu, þar sem mennirnir voru nafngreindir, en það þýðir að ekki hefur tekist að birta þeim ákærurnar. Lögreglan virðist því ekki hafa upplýsingar um hvort Simaili og Hana séu enn í felum á Íslandi eða hafi yfirgefið landið.