Erlendur ferðamaður greinir frá því að hafa orðið fyrir árás tveggja íslenskra unglinga í nótt. Annar hafi verið stuttur en hinn feitur. Telur hann að kynþáttahatur hafi verið orsök árásarinnar.
„Ég og kærastan mín vorum að fara út af Kaffibarnum um klukkan eitt á föstudagskvöld þegar við urðum fyrir árás tveggja unglinga (annar var stuttur en hinn aðeins hærri og feitur),“ segir maðurinn á samfélagsmiðlinum Reddit.
Segir hann að atvikið hafi átt sér stað nálægt Skólavörðustíg 12. Lögregla var kölluð til.
„Þeir fóru í veg fyrir okkur og litu út fyrir að ætla að draga upp hníf. Ég öskraði eins hátt og ég gat á hjálp. Því miður kom enginn til aðstoðar,“ segir maðurinn. Unglingarnir hafi kýlt hann nokkrum sinnum.
„Ég reyndi að komast út úr aðstæðunum. Þegar ég steig til baka þá fór kærastan mín á milli og þeir kýldu hana líka. Á þeim tímapunkti gat ég ekki staðist freistinguna að sparka. Og ég féll í götuna af því að ég missti jafnvægið við sparkið. Á meðan náði kærastan mín að fá einhvern til að koma að og koma þeim frá okkur.“
Maðurinn segist ekki vera í nokkrum vafa um ástæðu árásarinnar. Hún hafi verið sprottin af kynþáttahatri. Það eina sem unglingarnir hafi sagt við hann var: „Hvað heitir þú?“
„Það var frekar augljóst að þessi árás var sprottin af kynþáttahatri. Ég lít ekki út fyrir að vera Íslendingur,“ segir hann og reynir að gefa lýsingu á unglingunum tveimur.
Eftir árásina ræddi hann við mann fyrir utan verslunina 12 tónar við Skólavörðustíg 15 og sá maður hjálpaði honum að hringja á lögregluna um fimm mínútum eftir árásina en þá voru þeir horfnir á brott.
Segir hann að sá stutti hafi verið leiðtoginn í sambandi þeirra. Hann hafi verið sá sem hóf árásina. Var í kringum 170 sentimetra hár, í svörtum jakka og um 16 eða 17 ára gamall.
Sá feiti hafi verið fylgjandi í sambandi þeirra eða áhangandi. Var um 180 sentimetrar að hæð og í yfirvigt. Einnig í svörtum jakka og á aldrinum 16 eða 17 ára.
„Við vonum innilega að þið lendið ekki í þessu,“ segir hann að lokum.