Sif Sigmarsdóttir pistlahöfundur segir að ákveði hún að kjósa Pírata í kosningunum um næstu helgi gæti atkvæði hennar „farið til spillis.“ Það er að þeir næðu engum þingmanni inn. Hún gæti þó allavega lifað með sjálfri sér.
Í pistli á Heimildinni greinir Sif frá því að hún hafi verið á leiðinni í bíó í heimaborg sinni London þegar hún sá útigangskonu, svarta af sóti. Fólk tók fram hjá henni krók, eins og til að smitast ekki. Spyr Sif hvort fólk vilji ekki horfast í augu við misbresti samfélagsins, grimmd örlaganna eða sína eigin brothættu slembilukku.
Þegar konan missti epli á götuna beygði sig enginn vegfarandi eftir því. Sif gerði það, rétti konunni eplið og hendur þeirra snertust. Hún ásetti sér að þvo sér um hendurnar áður en hún fengi sér popp í bíóinu.
Þar sá hún myndina Small Things Like These, sem fjallar um fjölskyldufaðir sem verður vitni að harðræði sem ungar konur sættu á betrunarhæli kaþólsku kirkjunnar árið 1985. Átti hann að líta undan, þar sem þetta snerti hann ekki, eða setja sig upp á móti helsta yfirvaldi bæjarins.
„Ekki alls fyrir löngu lýsti Facebook-vinkona því yfir í færslu á samfélagsmiðlinum að hún hefði ætlað sér að kjósa Pírata í komandi alþingiskosningum. Í kjölfar skoðanakannana, sem sýndu flokkinn ekki ná þingsæti, hikaði hún hins vegar því henni leið eins og það jafngilti því að „henda atkvæðinu sínu“,“ segir Sif í pistlinum.
Fólk sé ekki aðeins að velta fyrir sér hvað eigi að kjósa heldur hvernig. Í forsetakosningunum í sumar hafi borið á því að fólk kysi taktískt.
„Sem kjósanda, sem sér ekkert athugavert við tilraunir til herkænsku í kjörklefanum, vakti Facebook-færslan athygli mína. Ég gekkst við forsendunum. Ég komst hins vegar að annarri niðurstöðu,“ segir Sif.
Hún tekur það fram að hún hafi ekki enn þá ákveðið hvað hún muni kjósa. Hún viti þó að hún teldi atkvæði sínu vel varið ef hún nýtti það til að reyna að koma í veg fyrir að rödd Pírata hyrfi af þingi.
„Því í veröld þar sem reglan er að „líta fram hjá ákveðnum hlutum“ til að „komast áfram í lífinu“ eru Píratar undantekningin,“ segir hún og vísar í epli konunnar og myndina um stúlkurnar á betrunarhælinu.
„Hvort sem um ræðir níðingsskap kaþólsku kirkjunnar, stjórnvöld sem misnota aðstöðu sína til að tryggja vinum hvalveiðileyfi, ógnunartilburði lögreglu í garð fjölmiðlafólks eða útigangskonu, er alltaf einfaldara að líta undan,“ segir Sif. „Það var ekki af sérstakri manngæsku sem ég hljóp á eftir epli útigangskonunnar. Ástæðan var praktísk: Ég þurfti að geta lifað með sjálfri mér. Kysi ég Pírata gæti atkvæði mitt farið til spillis. En ég gæti þó allavega lifað með sjálfri mér.“