fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 22. nóvember 2024 18:00

Ægisgata 7 í Reykjavík en þar stendur til að koma á gististarfsemi í stað vinnustofa listamanna. Mynd: Skjáskot/Já.is.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nokkuð sjaldséð eining kemur fram í fundargerð borgarráðs Reykjavíkur frá því í gær en algengara er að í fundargerðunum komi fram ágreiningur. Voru fulltrúar allra flokka nokkurn veginn sammála um að það sé slæmt að menningarstarfsemi þurfi sífellt að víkja fyrir hótel- og gistiþjónustu í miðborginni. Flokkarnir hörmuðu þetta þó mismikið og harmurinn var ekki nægilegur til að koma alfarið í veg fyrir að vinnustofur listamanna víki fyrir gististarfsemi.

Tilefni þessarar sjaldséðu einingar í ráðinu var tillaga um breytingu á deiliskipulagi Norðurstígsreits. Nánar tiltekið varðar tillagan breytingar á húsinu að Ægisgötu 7, í miðborginni, en samkvæmt tillögunni verður veitt heimild til að gera ýmsar breytingar á húsinu og nýta það fyrir gististarfsemi. Áður fyrr var rekin tunnuverksmiðja í húsinu en undanfarin ár hafa verið þar vinnustofur listamanna. Það stefnir þar með í að listamennirnir þurfi að víkja fyrir gististarfsemi. Fulltrúar í borgarráði voru sammála um að það væri slæmt að þarna væri komið enn eitt dæmið um að gististarfsemi væri að ryðja menningunni burt en samþykkt var að auglýsa tillöguna og þá vísað ekki síst til fyrirhugaðra framkvæmda og að þær myndu bæta ássýnd hússins til muna.

Slæmt en samt gott

Meirihlutaflokkarnir: Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn, Píratar og Viðreisn og áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna lögðu áherslu á hið bætta útlit hússins í sinni bókun:

„Í dag er fjöldi vinnustofa listamanna í gömlu tunnuverksmiðjunni við Ægisgötu 7. Starfsemin þar er blómleg. Það er áhyggjuefni ef slíkir staðir hrekjast stöðugt undan annarri starfsemi. Engu að síður felur tillagan í sér töluverða framför frá gildandi deiliskipulagi hvað varðar útlit hússins. Tillagan er í samræmi við aðalskipulag borgarinnar.“

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins tóku undir þetta í sinni bókun en ekki jafn kröftuglega:

„Fulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykkja að setja skipulagið í hefðbundið samráðsferli, með fyrirvara um endanlega afgreiðslu. Fulltrúarnir fagna áformum um að virða og lyfta upp þessari sögulegu byggingu en harma að aðstaða fyrir listamenn þurfi að víkja.“

Komið gott

Fulltrúi Sósíalistaflokksins sat hjá við atkvæðagreiðsluna um að auglýsa tillöguna og var öllu harðorðari í sinni bókun þar sem kemur fram að þessa þróun verði að stöðva:

„Miðborgina vantar ekki fleiri hótel, sú þróun að menningarlíf þurfi sífellt að víkja undan gististarfsemi er hvorki til góðs fyrir íbúa borgarinnar né fyrir ferðamannaiðnaðinn sjálfan. Borgarstjórn ætti að stíga fastar til jarðar með stuðning við þá menningarstarfsemi og listalíf sem enn er til staðar, annars verður lítið eftir fyrir ferðamenn að sækja heim, og borgarbúa að sækja í miðbæinn.“

Það sama sagði áheyrnarfulltúi Flokks fólksins í sinni bókun:

„Miðbærinn og nágrenni er orðið fullt af hótelum og gistiheimilum og ekkert lát virðist á. Annað hvort byggjast slík  híbýli frá grunni eða ryðja annarri starfsemi úr vegi til að koma hótel- og gististarfsemi fyrir. Fulltrúi Flokks fólksins telur að þetta hljóti að verða komið gott.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007
Fréttir
Í gær

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“
Fréttir
Í gær

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund