fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Segir Sjálfstæðisflokkinn víst boða skattalækkun á þá efnamestu – „Glittir líka hressilega í undirlægjuhátt Sjálfstæðismanna“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 22. nóvember 2024 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Haukur V. Alfreðsson, doktorsnemi í hagfræði, ritaði grein í vikunni þar sem hann benti á að Sjálfstæðisflokkurinn sé nú að boða skattalækkanir án þess að taka fram að umræddar breytingar muni fyrst og fremst gagnast þeim sem mest eiga hér á landi. Benti Haukur þá sérstaklega á boðaðar breytingar ár erfðafjárskattinum en Sjálfstæðisflokkur vill bæði hækka frítekjumark sem og lækka skatthlutfallið. Haukur rakti að fyrir meðalfólk í landinu eigi hækkað frítekjumark eftir að koma sér vel, það liggi þó fyrir að lækkun skatthlutfalls muni spara stóreignafólki gífurlegar fjárhæðir.

Ekki voru allir Sjálfstæðismenn þakklátir Hauki fyrir þessa greiningu. Þórður Gunnarsson, hagfræðingur sem skipar 11. sæti á lista Sjálfstæðisflokks í Reykjavík suður, skrifaði svargrein þar sem hann sagði að minni skattbyrði dánarbúa muni svo sannarlega skila sér í vasa venjulegs og vinnandi fólks. Þórður lætur að því liggja að skrif Hauks séu pólitísk þar sem hann sé í framboði fyrir Pírata. Haukur hafi skrifað að Sjálfstæðisflokkurinn væri að kasta ryki í augu millistéttarfólks en þetta væri gamalkunnugt mælskubragð vinstrimanna – ýta undir tortryggni til að réttlæta meiri skattheimtu frekar en minni. Það væri því Haukur sem væri að kasta ryki í augu fólks með skrifum sínum.

Nú hefur Haukur svarað Þórði og segist standa með fyrri grein. Sjálfstæðismenn séu bara víst að boða skattalækkanir fyrir þá efnameiri. Hann tók sem dæmi fimm ólík dánarbú og sýndi hvernig breytingin sem Sjálfstæðisflokkurinn boðaði kæmi út fyrir hvert þeirra.

Mynd/Haukur V. Alfreðsson

 

Þarna megi skýrt sjá hvernig breytingin muni helst gagnast þeim efnamestu sem geti sparað gífurlegar fjárhæðir á þessari breytingu, langt umfram millistéttina.

„Kerfi Sjálfstæðismanna myndi spara stórum dánarbúum tugi eða hundruðu milljóna umfram núverandi kerfi. Hinsvegar myndi meiri hækkun skattleysismarkanna án þess að breyta skattprósentunni setja þak á skattasparnað þeirra efnameiri við kerfisbreytinguna en styðja meðalmanninn jafn vel og alla þar undir betur (nema þau séu undir núverandi lágmarki, þá skiptir þetta engu).“

Virðisaukning sem hefur aldrei verið skattlögð

Það sé þó önnur umræða alfarið hvort erfðafjárskattur sé yfirhöfuð sanngjarn eða tæmi um tvísköttun. Hvað það varðar bendir Haukur þó á að það hafi ótvíræða kosti í för með sér að fresta skattlagningu. Þannig geti fjárfestir ávaxtað fjármuni, frestað skattlagningu og notið þar með aukinnar ávöxtunnar sem hann hefði annars ekki gert. Stundum sé að finna mikið af verðbréfum og fasteignum í dánarbúum sem hafa aukist mikið að virði og sú virðisaukning aldrei verið skattlögð. Skattkerfið á Íslandi leggi út með að það megi ekki gefa öðrum umtalsverðar fjárhæðir án þess að til skattlagningar komi, hvort sem það er í formi gjafa eða arfs. Þetta sé að auki forsenda allrar skattlagningar í viðskiptum.

„Í öllu falli stendur eftir að raunveruleg virðisaukning ýmissa eigna dánarbúa, sér í lagi stærri dánarbúa, hefur aldrei verið sköttuð.“

Haukur stendur því með fyrri grein sinni. „Lausnir Sjálfstæðisflokksins eru sem fyrr sniðnar að þeim efnameiri. Það verður hvers svo að eiga það við sjálfan sig hvort það sé gott eða slæmt.“

Undirlægjuháttur Sjálfstæðismanna

Eins furðar Haukur sig á því hvers vegna Þórður sakar hann um að vera í framboði. Hann sé vissulega flokksbundinn Pírötum, en hann sé þó ekki í framboði. Hvað varðar meiningar um að vinstrimenn séu að ala á tortryggni bendir Haukur á að Sjálfstæðismenn ættu þar fremur að líta sér nær, enda „lykilgerendur í gott sem öllum spillingarmálum Íslandssögunnar og hafa búið svo um að traust í garð stjórnmálamanna er í frostmarki“.

Sjálfstæðisflokkurinn hafi sjálfur þyngt skattbyrði almennra borgara statt og stöðugt síðustu áratugina, en ekki hjá þeim efnameiri. Sjálfstæðismenn hafi fjölgað ráðuneytum og blásið út ríkið auk þess að styðja varla nokkurt einasta frjálslyndismál. „Sem sagt boð, bönn og aukin skattheimta“.

Haukur segir að í skrifum Þórðar „glittir líka hressilega í undirlægjuhátt Sjálfstæðismanna fyrir fjármálaöflum“. Þórður vísi í grein sinni til stefnu Samfylkingarinnar í Noregi sem hafi nýlega sett skatt á óinnleystan gengishagnað. Þetta hafi haft í för með sér landflótta í stórum stíl, einkum hjá nýsköpunarfyrirtækjum. Þetta væri því ekki til eftirbreytni. Haukur bendir á að það sé rangt að afskrifa stefnu Norðmanna. Enda hafi stefna þeirra í auðlindamálum skilað þjóðinni stórum fjárfestingarsjóð, olíusjóð. Ísland fór aðra leið og eignaðist í staðinn fyrir slíkan sjóð kvótakónga.

Staðreyndin sé sú að auðmenn hafi tekjur sínar helst í gegnum eigna aukningu sem sé sjaldan raungerð til að þeir komist undan sköttum. Það sé engin lausn að leyfa þessu að viðgangast áfram með því að ala á hræðsluáróðri um að ef eignafólk fái ekki að losna undan skatti muni það flýja.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007
Fréttir
Í gær

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“
Fréttir
Í gær

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund