Tony Radakin, æðsti yfirmaður breska hersins, sagði nýlega í samtali við BBC að nýliðinn október hafi verið versti mánuðurinn fram að þessu fyrir Rússa í stríðinu. Að meðaltali hafi rúmlega 1.500 rússneskir hermenn fallið eða særst á hverjum degi. Þetta sé gjaldið sem þeir greiða fyrir að leggja smávegis landsvæði undir sig.
Jótlandspósturinn hefur eftir Kenneth Øhlenschlæger Buhl, hernaðarsérfræðingi við danska varnarmálaskólann, að þetta sé gríðarlegt mannfall. „Stríðið er nú komið á það stig að Rússar virðast hafa orðið fyrir gríðarlegu manntjóni. Við erum að nálgast tölur sem sáust í síðari heimsstyrjöldinni. Ekki heildarmannfallið í stríðinu, heldur mannfall á dag,“ sagði hann.
Hann notaði síðan D-dag, 6. júní 1944 en þá gengu hersveitir Bandamanna á land í Normandí, til samanburðar en þann dag létust, særðust eða týndust rúmlega 10.000 hermenn úr röðum Bandamanna en Þjóðverjar misstu um 9.000 hermenn þennan dag.
Einnig má benda á að í stríðinu í Írak frá 2003 til 2010 féllu 4.431 bandarískir hermenn og í stríðinu í Afganistan frá 2001 til 2014 féllu 2.354 bandarískir hermenn. Þetta eru tölur sem Rússar ná í viku hverri nú.