Myndirnar sýna olíuflutningaskip frá Norður-Kóreu við rússneskar hafnir og segir í frétt BBC að áætlað sé að Rússar hafi látið Norður-Kóreumönnum í té rúmlega milljón tunnur síðan í mars á þessu ári. Mun þetta vera greiðsla fyrir vopn, skotfæri og hermenn frá Norður-Kóreu sem taka þátt í stríðinu gegn Úkraínu.
Norður-Kóreumenn hafa lengi verið beittir viðskiptaþvingunum, meðal annars vegna prófana þeirra á langdrægum eldflaugum og þróunar á kjarnavopnum. Hafa Sameinuðu þjóðirnar lagt blátt bann við það að aðildarríki selji Norður-Kóreumönnum olíu nema í mjög takmörkuðu magni, eða 500 þúsund tunnur árlega.
Í frétt BBC kemur fram að gervihnattarmyndirnar sýni að minnst 43 olíuflutningaskip frá Norður-Kóreu hafi lagst að bryggju í Rússlandi á síðustu mánuðum og sótt olíu. Sýna myndirnar að skipin koma tóm til Rússlands en yfirgefa það með fullfermi.
Bent er á það í frétt BBC að Norður-Kórea sé eina ríki heimsins sem fær ekki að kaupa olíu á opnum markaði.