Þorvaldur Gylfason, prófessor emeritus í hagfræði, grunar að allt hafi ekki verið með felldu þegar hann kaus utan kjörfundar í gær. Atkvæðið hans hafi verið persónugreinanlegt og því óvíst að dómstólar myndu meta þessa framkvæmd gilda.
Þorvaldur greindi frá þessu í færslu á samfélagsmiðlum í gær. Í samtali við DV segist hann hafa kosið utan kjörfundar í Holtagörðum.
Í kosningunni tók hann eftir að atkvæðaseðillinn var lagður í lokað umslag ásamt blaði með nafninu hans.
„Þar eð það er eins manns verk að opna umslag er einsýnt að Kristín Edwald [formaður yfirkjörstjórnar] eða hver það nú verður sem opnar umslagið getur séð og skráð hjá sér hvað ég kaus,“ segir Þorvaldur í færslunni. Veltir hann fyrir sér réttarfarslegum áhrifum. „Ætli þetta teljist vera annmarki á framkvæmd kosningarinnar? Hvað ætli Hæstiréttur myndi segja um það kæmi málið til kasta hans?“ spyr hann.
Hafa þó nokkrar umræður spunnist um þetta. Bent er á að það eigi að setja atkvæðaseðilinn í ómerkt umslag og aftur í annað með nafni. Hið ómerkta sé lokað og sett í innsiglaðan kassa þangað til talið er.
Þorvaldur ítrekar hins vegar að í hans tilfelli hafi aðeins verið eitt umslag. Telja margir þar klárlega um lögbrot að ræða, atkvæðaseðillinn gæti því verið ógildur.