„Ég er reiður, það er óhætt að segja það,“ segir lögfræðingurinn Brynjólfur Sveinn Ívarsson. Fyrr á árinu sendi Brynjólfur skriflega kvörtun og fyrirspurn til ríkislögmanns vegna meintrar ólöglegrar húsleitar lögreglunnar á Suðurnesjum á heimili hans í Reykjanesbæ, meðal annars á skrifstofu hans sem er í risi hússins.
Aðdragandi að málinu var sá að lögregla hafði síðasta sumar samband við Brynjólf og spurðist fyrir um víetnamskan mann sem leigir herbergi á heimili hans. Fyrirspurnin var í tengslum við rannsókn á fíkniefnamisferli. „Sem mér finnst út í hött, ég væri ekki að leigja honum herbergi ef ég grunaði hann um fíkniefnamisferli. Þetta er rólegheitamaður sem vinnur myrkranna á milli uppi á velli,“ segir Brynjólfur í viðtali við DV.
Hann fékk nýlega var svar erindi sínu til ríkislögmanns. Þar er niðurstaðan sú að ósannað sé að húsleit hafi átt sér stað, en lögreglan á Suðurnesjum, sem leitað var til um umsögn í málinu, neitar því að húsleit hafi verið gerð. Segir lögreglan hins vegar að haft hafi verið samband við eiganda íbúðarinnar, sem er víetnömsk eiginkona Brynjólfs (en sjálfur á hann aðra íbúð annars staðar), með fyrirspurnir. Brynjólfur segir að hins vegar sýni símagögn það að þetta símtal hafi ekki átt sér stað.
Meint húsleit átti sér stað síðasta sumar skömmu eftir að lögregla hafði hringt í Brynjólf og spurst fyrir um leigjandann hans. „Hann leigir herbergi þarna á annarri hæð en skrifstofan mín er í risinu. Þar er líka geymsla. Hann sagði mér að lögreglan hafi farið upp í risið og skoðað þar, bæði inni á skrifstofunni minni og í geymslunni. Þegar hann hafði tjáð mér þetta sendi ég þeim tölvupóst og spurði hvað þeir hefðu verið að gera þarna. Þeir svöruðu tölvupóstinum með símtali tveimur mánuðum seinna. Þeir segja bara nei, það var ekki leit, það var talað við mann, allt og sumt.“
Brynjólfur hefur birt pistil um málið á Facebook-síðu sinni. Hann sakar lögreglu um að slökkva á búkmyndavélum sínum til að framkvæma óheimilar leitir þegar þeim dettur í hug. Hann segir jafnframt að Víetnamar búsettir hérlendis geri sér í mörgum tilvikum ekki grein fyrir réttindum sínum þegar óskað er eftir því að skoða híbýli þeirra. Pistillinn er eftirfarandi:
„Lögreglan leitar logandi ljósi að fíkniefnum á skrifstofu lögfræðings
Það er ólíðandi að lögregluyfirvöld hér á landi framkvæmi ítrekað ólögmætar húsleitir. Það er til að mynda mynstur hjá þeim að slökkva bara á búkmyndavélum til þess að leita þar sem þeim dettur í hug. Erlendis liggja þung viðurlög við slíku en hérlendis þykir það einfaldlega ekki tiltökumál. Þá hefur jafnframt borið á því að lögreglan notfæri sér það að landar sambýliskonu minnar (en lögreglan hefur verið að banka upp á hjá mörgum Víetnömum án sérstaks tilefnis) átti sig ekki á því að þeim sé fyllilega frjálst að samþykkja eigi að lögreglan leiti í húskynnum þeirra. Margir lögmenn sem ég þekki og hef rætt við hafa tjáð mér að það sé alvanalegt að lögreglan brjóti gegn ákvæðum X. kafla laga um meðferð sakamála.
Þann 12. júlí sl. Þá sló lögreglan á þráðinn til mín og spurði um leigjandann og hvort hann byggi í risi íbúðar konunnar minnar. Ég tjáði þeim að hann leigði herbergi hjá okkur en risið væri skrifstofa mín. Tiltölulega skömmu síðar þegar ég kom heim þá tjáði leigjandinn mér að lögreglan hefði leitað í herbergi hans, í risinu þar sem skrifstofan mín og í geymslu í risinu. Þar sinni ég m.a. störfum mínum sem talsmaður umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi. Það gefur að skilja að ég læt það ekki yfir mig ganga að lögreglan sé að gramsa í og valsa um skrifstofuna mína án þess að skilyrði 1. mgr. 75. gr. sakamálalaganna séu uppfyllt.
Ég óskaði eftir skýringum lögreglunnar á Suðurnesjum hvernig stæði á þessu með tölvupósti samdægurs. Það var ekki falið til þess að auka trúverðugleika hennar að hún svaraði því erindi seint og símleiðis.
Þá bar ég mál mitt undir ríkislögmann en hann hafnar öllum kröfum okkar skötuhjúanna og vill meina að það hafi einfaldlega engin húsleit átt sér stað. Leigjandinn hafi einfaldlega boðið þeim inn og hafi rætt við lögreglu og lögregla hafi orðið „þess áskynja að ekkert benti til fíkniefnamisferlis í íbúðinni sem var snyrtileg“ (það ætla ég rétt að vona). Þrátt fyrir það er sérstaklega tekið fram að leigjandinn hafi upplýst lögreglu um hver væri eigandi íbúðarinnar og að lögregla hafi haft samband símleiðis við hann. Það er fullkomlega afsannaleg fullyrðing. Aukinheldur, er vandséð af hvaða sökum lögreglan ætti að hafa samband við eiganda íbúðarinnar fyrst hún var bara að blanda geði við borgara og á síðan að hafa slegið á þráðinn til leigusala hans. Þetta nær ekki nokkurri átt.
Ég sé ekki betur en að lögreglan á Suðurnesjum hafi þá ekki einungis reynt að slá ryki í augun á mér heldur hafi jafnframt markvisst villt um fyrir ríkislögmanni. Það er hreint út sagt ömurlegt að geta ekki gengið að því vísu að lögregla þverbrjóti endurtekið lög um meðferð sakamála og hafi að sama skapi ekkert almennilegt aðhald í þeim efnum og það hafi engar teljandi afleiðingar fyrir lögregluna.
Ég var ósáttur fyrir en það er ekki laust við að ég sjái rautt þegar lögregluyfirvöld reyna grímulaust að hafa mig að fífli. Ég sé ekki betur en mér ætti að okkur ætti að vera í lófa lagið að afla gjafsóknar og þætti vænt um að lögmaður sem brennur fyrir þessum málaflokki myndi hnippa í mig.“